Nýjasta nýtt‎ > ‎

Vortónleikar Kvennakórs Reykjavíkur

posted May 8, 2012, 2:44 AM by Kolbrun Halldorsdottir   [ updated May 8, 2012, 2:51 AM ]

Kvennakór Reykjavíkur býður ykkur velkomna á vortónleika kórsins, sem haldnir verða í Fella- og Hólakirkju miðvikudaginn 16. maí kl 20:00 og sunnudaginn 20. maí kl. 17:00

 Að þessu sinni bera tónleikar kórsins keim af því að Kvennakór Reykjavíkur mun fara í kórferðalag til Ungverjalands í júní næstkomandi. Kórinn mun halda tónleika í Budapest á þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. Júní, í samstarfi við tvo blandaða kóra, Váci Harmónia Kórus og Gaude Kórus. Í Seged, í suður Ungverjalandi, munum við syngja með kvennakórnum Bartók Bela Nöikar. Það er því mikil eftirvænting í kórnum og tilhlökkun að kynnast Ungverjalandi og tónlistarlífi þar undir leiðsögn kórstjórans okkar, sem er frá Ungverjalandi.

Að vanda er lagavalið fjölbreytt. Í flutningi kórsins nú er lögð áhersla á íslensk verk, gömul og ný til að hafa með í farteski til útlanda. Við munum flytja íslensk þjóðlög og verk gömlu íslensku meistaranna svo og fjölda verka eftir núlifandi íslensk tónskáld svo sem Sköpun og fæðing, skírn og prýði eftir Huga Guðmundsson, Spinna Minni eftir Misti Þorkelsdóttur, Ég vil lofa eina þá eftir Báru Grímsdóttur og Haustvísur til Máríu eftir Atla Heimi Sveinsson svo fátt eitt sé nefnt.

 Kórinn mun líka spreyta sig á ungverksum tónverkum. Má þar nefna Ejsaka, stórkostlega náttúrulýsingu eftir József Karai og fjörugan hringdans Sárközi Karikázó, eftir sama höfund og er mikill tungubrjótur og skemmtilegur fyrir kórinn.

Ekki má gleyma sveiflunni í hinu sprellfjöruga mexikanska Las Amarillas, sem er þjóðlag í útsetningu Stephen Hatfield, þar sem raddirnar skiptast á um að syngja í mismunandi takti með tilheyrandi klappi og jafnvel danstilþrifum. Sjón er sögu ríkari!

Stjórnandi Kvennakórs Reykjavíkur er Agota Joó og píanóleik annast Vilberg Viggósson.

Miðaverð er 3.000 kr / 2.500 kr í forsölu. Miðar fást hjá kórkonum, í síma 8956468 eftir kl.17 og á postur@kvennakorinn.is

Comments