Sagan‎ > ‎

1995


Í janúar mættum við galvaskar á námskeið hjá Hafdísi Árna­dóttur í líkamsbeitingu.

Sibyl Urbancic, prófessor við tónlistarháskólann í Vínarborg, kynnti fyrir okkur ýmsa möguleika í samspili raddar og líkama við tónlistariðkun í febrúar.

„Þú hýri Hafnarfjörður“ tónleikar í Víðistaðakirkju, 1. mars

„Söngstjórinn vill með tónleikunum minnast góðra söngstunda sem hún átti með kórum bæjarins.“ sagði í Mbl. 28. febrúar.

Þann 4. mars hélt 2. sópran árshátíð með suður-amerísku ívafi.

Kvennakór Reykjavíkur söng á kosningaskemmtun G-listans í Óperunni í apríl og 20. apríl héldu Framhaldskórskólinn og Gospelsystur tónleika í Bústaðakirkju.

 

 „Vorsveifla“ í Langholtskirkju, 4. og 6. maí

„Kórinn er svo lánsamur að Aðalheiður Þorsteinsdóttir, einn leiðbeinanda okkar, hefur útsett og umritað fyrir okkur nokkur laganna á söngskránni. Þetta er alveg ómetanlegt, þar eð oftast eru ekki til raddsetningar fyrir fjögurra radda kvennakór.“ Vortónleikaefnisskrá, maí 1995.

„Voces Mirabilae”
„Kvennakór Reykjavíkur hefur nú sett nýjan viðmiðunarstaðal fyrir íslenska kvennakóra og gott ef ekki samkynja kóra yfirleitt – hvað varðar raddfegurð, raddgæði og hreinleika.“ „Nýtt og stórfenglegt hljóðfæri hefur fest sig í sessi, svo ekki verður um villst.“ Ríkarður Ö. Pálsson Mbl. 9. maí.

 

Nýr kórbúningur - Jarðlitasinfónía

„Kórkonur skarta sínu fegursta á þessum vortónleikum. Nýr kórbúningur lítur dagsins ljós! Eftir mikinn undirbúning var hafist handa á vorönn. Æfingahúsið okkar breyttist í saumastofu, þar sem var sniðið og mátað. Umsjón hafði búninganefndin og Hafdís Hannesdóttir, undir yfirstjórn Eddu Bergmann Guðmunds­dóttur klæðskera.“ Vortónleikaefnisskrá, maí 1995. 

„Það er sérstök upplifun að fara á tónleika hjá Kvennakór Reykjavíkur. Horfa á þær ganga inn á sviðið, hverja á fætur annarri, lengi, lengi. Það er eins og ekkert lát ætli að verða á þessum endalausa straumi af konum. Að þessu sinni eru þær í nýjum búningum, sem mynda geysifallega jarðlitasinfóníu“. Sonja B. Jónsdóttir Vera 3. tbl. 1995.

„120 kossar“
„Það er auðséð að Margrét býr yfir geysilegu aðdráttarafli fyrst hún getur heillað til sín 120 glæsilegar konur og fengið þær til að flytja svo stórskemmtilega og sérlega vel unna dagskrá. Sú mikla sönggleði og sá áhugi sem smitaði frá sér til áheyrenda ber vott um hvílíkt kraftaverk kórstjórinn er fær um að vinna. Ég sendi kórnum 120 kossa.“ Sigurður V. Demetz Fransson Mbl. 12. maí.

HM í handbolta – í beinni útsendingu um allan heim, 7. maí.
„200 manna blandaður kór söngvara úr Karlakór Reykjavíkur, Kvennakór Reykjavíkur og Kammerkór Langholtskirkju söng eitt lag á meðan meðlimir hans gengu um gólf Hallarinnar og ungmenni héldu á sex upplýstum boltum en ljósin í Höllinni höfðu verið deyfð. Tilkomumikil sjón.“ Mbl. 29. maí.

Kvennakór Reykjavíkur söng á sumarhátíð Reykjavíkurlistans, 16. júní.

„Konur syngja ættjarðarsöngva á Austurvelli í þetta sinn“
„...rofin áratuga hefð með söng Kvennakórs Reykjavíkur [við hátíðardagskrá á Austurvelli, 17. júní].“ Mbl. 16. júní.


2. Landsmót íslenskra kvennakóra, 23. – 25. júní


Um 200 konur úr 10 kórum víðs vegar að af landinu tóku þátt í mótinu. Æft var á þremur stöðum í borginni. Haldnir voru tónleikar á Ingólfs­torgi og sungið í Seltjarnarneskirkju. Mótinu lauk með tónleikum í Borgarleikhúsinu. Þar var haldið lokahóf og fannst konum naumt skammtað í veislunni.

 


Sibyl Urbancic hélt áfram að kynna Kvennakórskonum leyndardóma raddar og líkama í september. Meðal annars æfðum við okkur á yfirtónum.

Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur hóf starf í september undir stjórn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur, píanóleikari Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur, kór eldri kvenna, hóf einnig starfsemi sína í september. Stjórnandi Rut Magnússon.

2. alt hélt októberhátíð með rússnesku ívafi. Meðal annars dansaði dansflokkur frá „Bolsjojoj“ með frægar stjörnur í fararbroddi á táskóm. „Karlakór“ söng „Hraustir menn“ og sýndi kósakkadans. Á matseðlinum var bjarnarkjöt og blíní.

Fimmtudagskvöld með Kvennakór Reykjavíkur:

2. nóvember – Allrasálnamessa
„Tónleikar Vox Feminae í Kristkirkju. Eftir tónleikana var söngkaffi að Ægisgötu 7 með skemmtiatriðum.“

6. nóvember
„Tónleikar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Eftir tónleika söngkaffi að Ægisgötu 7.“

16. nóvember
„Stefnumót, Senjorítukórinn og Gamlir Fóstbræður skemmta ásamt öðrum góðum gestum, kaffiveitingar að Ægisgötu 7.“

30. nóvember
„Bráðum koma jólin.
Rifjum upp jólasöngva með Kvennakór Reykjavíkur, kakó og smákökur að Ægisgötu 7.“

Húsfyllir var öll kvöldin og mikil stemning.

Margrét Þorvarðardóttir hannaði plakat fyrir tónleikana og einnig jólakort sem seld voru til styrktar kórnum.

„Nú kemur heimsins hjálparráð“ aðventutónleikar 10. desember í Víðistaðakirkju og 13. og 14. desember í Hallgrímskirkju

„Seinni hluti tónleikanna var að mestu helgaður algengum jólalögum, eins og Borgin helga, Ó, Jesúbarn blítt, Englakór frá himnahöll og Ó, helga nótt, sem öll voru vel flutt og var eftir­tektar­vert hversu söngur Elsu Waage og kórsins í sumum þessara laga var þrunginn af trúarlegri einlægni, sérstaklega í Borgin helga og Ó, helga nótt sem bæði voru sérlega fallega sungin“. Jón Ásgeirsson Mbl. 19. desember.

„Kórinn gekk inn kirkjuskipið syngjandi Nú kemur heimsins hjálparráð í raddsetningu dr. Róberts A. Ottóssonar sem Ulrik Ólason umritaði fyrir kvennakór. Fallega gert og hljómaði vel.“ Áskell Másson DV 15. desember.

 

Jólaball var haldið fyrir börn kórkvenna á milli jóla og nýárs.Comments