Sagan‎ > ‎

1996


Hafdís Árnadóttir og Orville Pennant, danskennarar í Kramhúsinu, mýktu mjaðmir kórkvenna, 23. janúar – 1. febrúar. Sibyl Urbancic kenndi okkur raddspuna, 5. og 7. febrúar.

Fimmtudagur með Sibyl.
Keðjusöngvar og kaffiveitingar að Ægisgötu 7, 15. febrúar.

Kvennakór Reykjavíkur samgladdist Karlakór Reykjavíkur á 70 ára starfsafmæli hans með því að syngja tvö lög á tónleikum í Háskólabíói 17. febrúar. „Kveðja frá litlu stúlkunum í vesturbænum.“

Árshátíð með grísku ívafi sem 1. alt hélt 24. febrúar. Konur klæddust „toga“ og sungu grísk lög með frábærum textum eftir Jóhönnu Eyþórs­dóttur sem einnig lék undir. „Grískt“ sölufólk seldi vörur til styrktar væntanlegri utanlandsferð.Ég trúi á ljós.“

Léttsveitin og Kvennakór Reykjavíkur voru með gospeltónleika í Loftkastalanum og héldu sex tónleika fyrir troðfullu húsi, 4. 6. og 13. mars.

„200 söngsystur, í afrískum búningum, stormuðu syngjandi inn á sviðið og héldu þar flotta sýningu með söng og dansi, ásamt Agli Ólafssyni, dönsurum úr Kramhúsinu o. fl. Þarna ríkti gífur­leg stemning og gleði. Tónlistin var unaðsleg, negrasálmar, blues og swing, og ákaflega góðir straumar fylgdu vönduðum og kraftmiklum flutningi.

Konurnar höfðu greinilega svo gaman af því að syngja og sú gleði lét engan ósnortinn. Margrét Pálma­dóttir er ógleymanleg, þar sem hún stjórnaði, syngjandi eins og blökkukona í fasi og útliti.“
Vala S. Valdemarsdóttir Vera 2. tbl. 1996.

Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur sungu í fyrsta sinn opinber­lega á 10 ára afmælishátíð Félags eldri borgara í Laugardalshöll 14. mars.

Söngveisla á sumardaginn fyrsta, 25. apríl

Allir sönghópar sem störfuðu í húsinu, alls tæplega 300 konur, komu fram ásamt fleiri góðum gestum. Í lok skemmtunarinnar kom Árni Johnsen og söng fyrir okkur og með okkur, hann kunni alla textana en við bara suma!

„Ísland er land þitt“

vortónleikar 8. maí í Hafnarborg og 10., 11. og 12. maí í Langholtskirkju.

Frumflutt var lag eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sem hann samdi fyrir Kvennakór Reykjavíkur, við ljóð Jóns úr Vör, „Konur“ úr ljóðabálki hans „Þorpið“. „Það er skemmst frá að segja, að Kvennakór Reykjavíkur syngur hreint, með fögrum raddhljómi og stjórnandinn, Margrét J. Pálmadóttir, nær oft að magna upp sterka stemningu og einnig leikrænan flutning, sem á sér dýpri rætur en útfæra má aðeins með taktslætti og nákvæmu tóntaki og er þeirrar ættar sem heitir skáldskapur.“ Jón Ásgeirsson Mbl. 11. maí.

 Kvennakór Reykjavíkur söng á 80 ára afmælishátíð Alþýðu­sam­bands Íslands 25. maí og kom fram á eftir Spaugstofufélögum!

Gefin var út spóla í maí með ýmsum lögum, sem valin voru úr upp­tök­um sem gerðar voru á tónleikum Kvennakórs Reykjavíkur. Spólan var seld kórkonum og tekin með til kynningar á kórnum í Ítalíuferð. Eitthvað af spólunum var stolið í ferðinni og þótti okkur það meðmæli!

„Addio"
Kveðjutónleikar fyrir Ítalíuferð 2. júní í Langholtskirkju. Frumflutt var verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson, „Salve Regina“, og samdi hann það fyrir
Kvennakór Reykjavíkur, sem gjöf frá Þuríði Pétursdóttur, 2. alt. „Með Móður minni í kví kví kvaddi Kvennakórinn að mestu sorg og sút. Lagið er að vísu engin sæludilla, en mannskapurinn var alltjent orðinn heitur og hreinn. Hrífandi var að heyra sópran yfirraddirnar tísta lengst uppi, undir lokin og hefði verið enn áhrifa­meira að halda þeim þar aðeins lengur.“ R.Ö.P. Mbl. 5. júní.

Ítalía, 7. – 17. júní

Tónleikar voru haldnir þann 8. júní í Sant’Ignazio kirkjunni í miðri Rómarborg. 

Þann 9. júní var sungið við hámessu í Péturs­kirkjunni í Róm og á aðaltorginu í Subiaco.
Einnig voru tónleikar þann 12. júní á alþjóðlegri listahátíð í Teatro della Limonaia í Florens og 14. júní í Hertogahöllinni í Marina de Massa.

Hápunktur tónleika­ferðarinnar var í Péturskirkjunni í Róm þar sem Kvennakór Reykjavíkur og Sigrún Hjálmtýsdóttir sungu m.a. Ave María eftir Sigvalda Kaldalóns við hámessu að viðstöddum um 25 þúsund manns.


Kvennakór Reykjavíkur, Kammerkór Grensáskirkju og Sing und Spielkreis frá Frankfurt sungu í Seltjarnarneskirkju 18. júlí.
Eftir tónleikana var eldað spaghettí, a la Ástríður G., en þar sem hún var ekki viðstödd, misheppnaðist pastað! Kjötsósa hennar var afbragð, eins og við var að búast. Rækjusalat Á.G. var æði, en Þjóðverjarnir borðuðu ekki fisk, eins og ein úr þýska kórnum komst að orði.

Vigdís Finnbogadóttir yfirgaf stjórnarráðið í síðasta skipti sem forseti Íslands, 31. júlí og þegar forsetinn steig út fyrir dyr stjórnar­ráðsins beið mikill mannfjöldi fyrir utan. Kvennakór Reykja­víkur söng á þessari kveðjustund og leiddi fjöldasöng. Tók forseti og viðstaddir undir með kórnum.

Fyrsta menningarnótt í Reykjavík var haldin í tengslum við 210 ára afmæli Reykja­víkur­borgar, 17. ágúst.
„Í mínum huga var það hápunktur kvöldsins þegar Kvennakór Reykjavíkur og Karlakór Reykjavíkur mættust á brúnni á milli Iðnó og Ráðhússins, með kyndla sem lýstu upp bjarta nóttina, og sungu saman með miklum tilþrifum. Sú stund var ógleyman­leg.“ Kristín A. Árnadóttir Mbl. 24. júní 1997.

Októberhátíð með háværri, þýskri lúðrasveit, 26. október.

Senjorítur héldu tónleika 16. nóvember og fengu góða gesti í heimsókn, Kvennakór Hafnarfjarðar. Þetta var einstaklega vel heppnuð skemmtun og haldin að Ægisgötu 7.


„Englakór frá himnahöll“ aðventutónleikar í Hallgrímskirkju, 7. og 8. desember

„...söng Kvennakórinn Jól eftir Jórunni Viðar, við ljóð eftir Stefán frá Hvítadal. Jól er falleg tónsmíð og var auk þess sérlega vel flutt. Jól Jórunnar, Salve Regina, eftir Hjálmar og bæði verkin eftir Mendelssohn voru best fluttu viðfangsefni tónleikanna.“ Jón Ásgeirsson Mbl. 10. desember.

 

Jólasamsöngur var haldinn 12. desember.

 Comments