Sagan‎ > ‎

1997

 


„Suðræn sveifla“ 

Gospel- og salsatónleikar voru haldnir í Borgarleikhúsinu dagana 17., 18. og 24. mars og voru allir 6 tónleikar vel sóttir. Konur klæddust afrískum búningi í fyrri hluta tónleikanna, en suður-amerískum búningi í seinni hlutanum. „Tónleikar Kvennakórs Reykjavíkur, Tamlasveitarinnar og Egils Ólafssonar í síðustu viku vöktu mikla athygli og voru mikið sóttir. Vegna eftirspurnar verður leikurinn endurtekinn í Borgarleikhúsinu í kvöld kl. 20.00. Suðrænir salsataktar ráða ferðinni á tónleikum þessum og mun kórinn flytja fjölbreytta dagskrá, þar sem ekki er eingöngu sungið heldur stigin létt sambaspor með söngnum.“ DV 24. mars 1997.

 


Stórtónleikar voru 27. apríl í Grafarvogskirkju til styrktar orgelsjóði kirkjunnar sem stofnaður var til minningar um Sigríði Jónsdóttur, fyrsta organista Grafarvogssafnaðarins. Kór Grafarvogskirkju stóð fyrir skemmtuninni og kórar og einsöngvarar sungu og gáfu vinnu sína í sjóðinn. Kvennakór Reykjavíkur söng þrjú lög.

 


Vortónleikar Kvennakórs Reykjavíkur 

„Ef þig langar að syngja“ í Langholtskirkju 9. 10. og 11. maí voru jafnframt kveðjutónleikar Margrétar J. Pálmadóttur. Gestir tónleikanna voru aðrir sönghópar er störfuðu undir merki Kvennakórs Reykjavíkur. „Í heild var söngur kóranna mjög góður, þó Aðalkórinn og Vox Feminae færu fyrir öðrum, hvað snerti viðfangsefni og vandaðan söng. Það er ekki ofsögum sagt, að Kvennakór Reykjavíkur sé eitt stórt ævintýri og ef vel er á haldið, getur þessi stofnun orðið mikið músíkstórveldi og markað stór spor í tónlistarsögu okkar Íslendinga.“ Jón Ásgeirsson Mbl. 13. maí. 
 

„Nýr stjórnandi hefur verið ráðinn til starfa með Kvennakór Reykjavíkur nú í haust og er það Sigrún Þorgeirsdóttir.“ Sigríður Anna Ellerup, formaður kórsins, í efnisskrá vortónleika.

Fjölmennt kveðjuhóf var haldið á Ægisgötu 7 11. maí fyrir Margréti J. Pálmadóttur sem var kvödd með söknuði. Kórkonur færðu henni málverk eftir Kolbrúnu Sigurðardóttur og var málverkið síðar notað sem mynd á hljómdisknum Víf. Kórkonur sungu nokkur lög í hinum ýmsu búningum frá rúmlega 4 ára kórstarfi.

Kvennakór Reykjavíkur söng við Garðaskóla 15. júní á meðan á verðlaunapeningaafhendingu stóð fyrir Kvennahlaupið 1997.

Sigrún Þorgeirsdóttir og Rannveig Pálsdóttir fóru í september til fundar við Kvennakórasamtök Norðurlanda í Stokkhólmi og færðu þeim boð frá Kvennakór Reykjavíkur um að halda 1. norræna kvennakóramótið á Íslandi. Rannveig kynnti starfsemi Kvennakórs Reykjavíkur fyrir hinum þátttakendunum og Sigrún kynnti íslenska kvennakóratónlist.

Allar konur í Kvennakór Reykjavíkur mættu í raddpróf 7. september hjá nýja stjórnandanum, Sigrúnu Þorgeirsdóttur. Konur voru beðnar að undirbúa sig lítilsháttar fyrir þetta raddpróf og líta á eftirfarandi lög: Maístjarnan, Blátt lítið blóm eitt er og Sofðu unga ástin mín. Fyrsta kóræfing með Sigrúnu var 17. september.

„Nú á haustönn var bryddað upp á enn einni nýjung en það eru Gospelsystur Möggu Pálma.“ Sigríður Anna Ellerup í aðventuefnisskrá 1997.

Kvennakór Reykjavíkur söng á haustfagnaði Úrvals-fólks undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur þann 16. október.

28. nóvember söng kórinn nokkur jólalög við undirleik Svönu Víkingsdóttur á skemmtikvöldi á Rauða ljóninu á Eiðistorgi.

Aðventutónleikar Kvennakórs Reykjavíkur, „Friður, friður, frelsarans“, í Hallgrímskirkju 30. nóvember og 1. desember

Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur komu fram á tónleikunum. „Jólaaðventan hófst með tónleikum Kvennakórs Reykjavíkur í Hallgrímskirkju sl. sunnudag.“
„ …Tvö verk af nýrri gerðinni voru á efnisskránni [Salve Regina eftir J. Busto og Regina Angelorum eftir P. Kostainen] ...Flutningur Kvennakórsins á þessum lögum var hinn ágætasti, en til þessa hefur Kvennakór Reykjavíkur ekki fengist mikið við að syngja nútímalegri verk.“ „…Nýr stjórnandi hefur nú tekið við af Margréti Pálmadóttur, en Sigrún Þorgeirsdóttir stýrir nú kórnum. Söngur kórsins var í alla staði vel vandaður og fallega hljómandi.. “ Jón Ásgeirsson Mbl. 4. des 1997.

 

Hljómdiskurinn Víf – Kvennakór Reykjavíkur undir stjórn Margrétar Pálmadóttur

„Þar kom að því að Kvennakór Reykjavíkur lét hljóðrita söng sinn og gefur út hljómdisk í jólahljómdiskaflóðinu 1997.“ „...hefur útgáfa hans í alla staði tekist mjög vel.“ „Kórinn mjög góður, svo sem vitað var og söngskráin skemmtileg og fjölbreytt – með smásveiflu þegar á líður.“ „Semsagt í alla staði ágætlega heppnaður hljómdiskur.“ Oddur Björnsson Mbl. 10. des. 1997.

 

 


Comments