Sagan‎ > ‎

1998

Fimm ára afmælið 25. janúar

„Í janúar voru liðin fimm ár frá því Kvennakór Reykjavíkur var stofnaður. Starfsemi kórsins hefur vaxið hratt á þessum árum og nú starfa fimm kórar undir merkjum Kvennakórsins; auk Kvenna­kórsins eru það Vox Feminae, Léttsveitin, Senjoríturnar og Gospelsystur. Í tilefni afmælisins munu fjórir fyrstnefndu kórarnir syngja á sjúkrastofnunum og dvalarheimilum fyrir aldraða í Reykja­vík á morgun. Að söngnum loknum verða kaffiveitingar í félagsheimili kórsins að Ægisgötu 7, kl. 15:30.“ DV 7. febrúar 1998. Kvennakór Reykjavíkur söng bæði á Kleppsspítala og Landspítala K-byggingu 8. febrúar, í tilefni afmælisins. Í afmælishófi kynnti stjórn kórsins nýtt merki kórsins sem Soffía Árnadóttir hannaði.

Fyrstu æfingabúðir Kvennakórs Reykjavíkur í Munaðarnesi, 27. - 29. mars.
Æft var af kappi föstudagskvöld, allan laugardag og sunnudags­morgun. Sameiginlegt borðhald og skemmtun á laugardagskvöldi þar sem hvert hús var með atriði. Á heimleið var komið við á Akra­nesi og Kvennakórinn Ymur heimsóttur. Þessa helgi var snjó­lítið í Borgarfirðinum og fagurt veður.

„Karla- og kvennakór undir sama þaki.
Formenn Karlakórs Reykjavíkur og Kvennakórs Reykjavíkur hafa skrifað undir tíu ára samning um leigu Kvennakórsins á aðstöðu í hinu nýja tónlistarhúsi Karlakórsins, Ými, við Skógarhlíð 20. Kvennakór Reykjavíkur mun flytja alla sína starfsemi í tónlistarhúsið, en undir merkjum hans starfa nú fimm kórar.“ Mbl. 1. maí 1998.

Kvennakór Reykjavíkur söng á 35 ára afmæli Kópavogskirkju og leiddi almennan safnaðarsöng ásamt félögum úr kór kirkjunnar.

„Tíminn líður” 

Fyrstu vortónleikar undir stjórn hins nýja stjórnanda, Sigrúnar Þorgeirsdóttur, í Langholtskirkju, 12., 13. og 16. maí.

„Fagurmótaður söngur.“ „Sigrún Þorgeirsdóttir mótaði söng kórsins mjög fallega og leggur áherslu á mjúka og þýða hljóman...“ „...[hún fær] fram mjög fagurlega mótaðan söng, “kúltiveraðan“, eins og sagt er...“ „Sigrún Þorgeirsdóttir er sérlega áhugaverður kórstjóri og kann auðheyrilega margt fyrir sér í fagurmótun söngs, sem var heildar­ein­kenni tónleikanna.“ Jón Ásgeirsson, Mbl. 15. maí 1998.

 

Eftir tónleika 16. maí, var haldið upp í Rauðhóla og kórinn myndaður. Þaðan var haldið á skemmtun í Skíðaskálanum í Hvera­dölum þar sem Svana Víkingsdóttir var kvödd og henni þökkuð störf í þágu kórsins. Við þetta tækifæri færði Svana kórnum að gjöf tón­verkið Barnagæla eftir mann hennar, Ólaf Axelsson.

 

Kvennakór Reykjavíkur og Karlakór Reykjavíkur sungu undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur á uppstigningardag 21. maí, á fjölskylduhátíð Reykjavíkurlistans í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

17. júní söng Kvennakór Reykjavíkur á Austurvelli er forseti Íslands lagði blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar.

 

Fyrsta æfing Kvennakórs Reykjavíkur á haustönn var haldin 16. september í nýju æfingahúsnæði í Ými. Eingöngu jarðhæð hússins var tilbúin og fór öll starfsemin fram þar. Þórhildur Björnsdóttir tók til starfa sem píanóleikari kórsins.
Björk Jónsdóttir var með raddþjálfun einu sinni í viku. Fjölmennasti kórskóli Kvennakórs Reykjavíkur frá upphafi, með um 60 konur í tveimur hópum var starfræktur undir stjórn Sigrúnar Þorgeirs­dóttur.

Í október var haldin Hrekkjavöku/Halloween-hátíð í tilefni af væntanlegri ferð Kvenna­kórs Reykjavíkur til Bandaríkjanna í júní 1999.

Kvennakór Reykjavíkur og aðventutónleikar hans voru kynntir í sjónvarpsþættinum „Kristal“. Kórinn söng nokkur lög og viðtöl voru við nýja og gamla kórfélaga og kórstjóra. Upptaka fór fram í Hall­gríms­kirkju.

„Að tilhlutan náttúruverndarsamtaka, útivistarfélaga og fjölmargra einstaklinga er boðað til almenns fundar um verndun miðhálendis­ins í Háskólabíói, 28. nóvember.“ Mbl. 27. nóvember. Kvennakór Reykjavíkur söng en þarna komu fram margir lista­menn og gáfu allir vinnu sína til styrktar málefninu. Sama dag var vígsla tónlistarhússins við Skógarhlíð. Tónlistarhúsið Ýmir var vígt og gefið nafn við hátíðlega athöfn. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, afhjúpaði veglegt ljósa­skilti með nafni hússins og Karlakór Reykjavíkur og Kvennakór Reykjavíkur sungu.

Kvennakór Reykjavíkur söng á aðventukvöldi Breiðholtssafnaðar í Breiðholtskirkju, 29. nóvember.

 

Aðventutónleikar Kvennakórs Reykjavíkur 

„Með gleðiraust og helgum hljóm” voru haldnir í Hallgrímskirkju 29. nóvember og 1. desember. Gestir kórsins voru kórskóli Kvennakórs Reykjavíkur. „Kvennakór Reykjavíkur söng flestallt mjög fallega og í góðu jafnvægi undir öruggri stjórn hins nýja kórstjóra...“ „...tókust tónleikarnir í heild með ágætum, og gengu þakklátir áheyrendur heim vel andlega búnir undir aðsteðjandi jólahátíð.“ skrifaði Ríkarður Ö. Pálsson í Mbl. 1. desember 1998.

Með þessu fyrsta plakati Andreu Haralds hófst frábær listræn vinna hennar fyrir Kvennakór Reykjavíkur.

Hópur úr Kvennakór Reykjavíkur söng við jólahlaðborð í Bláa lóninu 5. desember.

7. desember var jólasamsöngur haldinn í Ými með öllum þátttakendum í starfsemi Kvennakórs Reykjavíkur.

 


Comments