Sagan‎ > ‎

1999

Tónleikar fyrir börn í Möguleikhúsinu í febrúar, Bíótónar í Loftkastalanum í mars, vortónleikar „Þó þú langförull legðir“ og Ameríkuferð í júní.

Möguleikhúsið og Kvennakór Reykjavíkur stóðu fyrir tvennum barnatónleikum í Möguleikhúsinu við Hlemm 13. febrúar. Hópur úr Kvennakór Reykjavíkur flutti lög fyrir börn úr kvik­mynd­um og söngleikjum, sem flest börn kannast við. Kynnar á tónleikunum voru systurnar Snuðra og Tuðra.

Æfingabúðir voru í Munaðarnesi 5. - 7. mars þar sem æft var af kappi fyrir væntanlega Bíótónasýningu í Loftkastalanum. Mikið sjú-bí-dú. Þessa helgi kyngdi niður snjó, í logni.

 


„Bíótónar”

Kvennakór Reykjavíkur hélt í fjórgang hressilega skemmtun í Loftkastalanum 21. og 23. mars. Lögin sem flutt voru hafa öll verið sungin í kvik­myndum. Andrea Gylfadóttir söng með kórnum og kom m.a. fram sem Marilyn Monroe í „Diamonds are a Girl's Best Friend“.

Kvennakór Reykjavíkur sá um tónlistarflutning í messu í Dómkirkjunni 21. mars á Boðunardegi Maríu.

„Þó þú langförull legðir”

Tónleikar í Digraneskirkju og Grafarvogskirkju 3. og 6. júní.

Á þessum tónleikum var frumflutt verkið Barnagæla eftir Ólaf Axelsson við samnefnt kvæði Vilborgar Dagbjartsdóttur. Það var kveðjugjöf Svönu Víkingsdóttur píanóleikara. Yfirskrift tónleikanna vísar til lags Sigvalda Kaldalóns við kvæði eftir Stephan G. Stephansson en einnig til fyrirhugaðrar tónleika­ferðar kórsins til Bandaríkjanna. „Konur með eld í hjarta“ „...söngur kórsins er ákaflega músíkalskur, og auðheyrt að túlkun hvers lags er úthugsuð og að unnið er markvisst að því að hugmyndir að músíkalskri útfærslu lifni í söngnum.“ sagði Bergþóra Jónsdóttir í Mbl. 5. júní.

Kvennakór Reykjavíkur söng í opnu húsi 4. júní í Hátúni 12 á fjörutíu ára afmæli Sjálfsbjargar og 10. júní söng kórinn fyrir starfmenn í álverinu í Straumsvík en þetta var fyrsti viðkomustaður í tónleikaferð til Bandaríkjanna 10. - 20. júní.

  „Ameríka hír ví komm”

Fyrsti viðkomustaður í Bandaríkjunum var Boston. Þar söng kórinn á útitónleikum í Faneuil Hall þar sem fyrstu hugmyndir um sjálfstætt ríki komu fram. 

Þann 13. júní söng kórinn við messu í Old South Church og hélt þar vel sótta tónleika síðar um daginn. 


Myndataka á Cobley Square eftir tónleikana í Old South Church.


Þriðjudaginn 15. júní var sungið í Washington Square United Methodist Church í New York borg við góðar undirtektir. Vakti maður á fremsta bekk sérstaka athygli kórkvenna þar sem hann tárfelldi við flutninginn. Var hann þó á engan hátt tengdur landi eða kórnum. 


Á þjóðhátíðar­degi Íslend­inga var sungið á tröppum Lincoln minnismerkisins í sannkölluðu þjóðhátíðarveðri – grenjandi rigningu.

Síðar um daginn var kórn­um boðið til fagnaðar í sendiherrabústaðnum hjá Jóni Baldvini Hannibalssyni og Bryndísi Schram. Þar flutti kórinn ættjarðarlög fyrir gesti og gangandi. 

Lokatónleikar ferðarinnar voru útitónleikar 18. júní í Inner Harbor í Baltimore. 

Þann 19. júní var að sjálfsögðu hlaupið Kvennahlaup ÍSÍ í Baltimore. Síðar þann dag fóru allir ferðafélagar til Sandy Point State Park sem er við sjóinn þar sem grillaðir voru hamborgarar og sykurpúðar að amerískum sið.


4. landsmót íslenskra kvennakóra á Siglufirði

Á haustönn aðstoðaði Soffía Stefánsdóttir við raddþjálfun kórsins en kórinn fór á 4. landsmót íslenskra kvennakóra á Siglufirði sem haldið var 8. – 10. október.
Lítill hópur (36 konur) frá Kvennakór Reykjavíkur lagði af stað til Siglufjarðar í hríðarbyl. Vegna veðursins vorum við seinni á ferðinni en til stóð og misstum af mótssetningunni. Kórinn gisti í gamla skíðaskálanum rétt fyrir utan bæinn. Boðið var upp á radd­þjálfun hjá enskum raddþjálfurum, Paul Farrington og Gillyanne Kayes sem kynntu okkur m.a. líffræðilega hlið söngsins í nærmynd. 
Kvennakór Reykjavíkur söng á lokatónleikum mótsins og í lokahófi um kvöldið. Þar var mikið fjör og dansinn stiginn við undir­leik Harmonikkusveitar Siglufjarðar. Mikill menningarbragur var á mótinu m.a. listsýningar og sýning á Síldarminjasafninu.

Hér er kórinn á sundlaugarbarmi að æfa fyrir sameiginlega tónleika á sunnudag.Aðventutónleikar Kvennakórs Reykjavíkur, „Ljómar nú jata lausnarans”

28. nóvember og 30. nóvember í Hallgrímskirkju. „... staða Kvennakórs Reykjavíkur undir stjórn Sigrúnar Þorgeirs­dóttur sem flaggskip íslenzkra kvennakóra þótti manni...óhögguð.“ skrifaði Ríkarður Ö. Pálsson í Mbl. 30. nóvember 1999.

Upptökur fyrir geisladiskinn „Jól“ fóru fram í Digraneskirkju 5. desember og jólasamsöngur var í Ými 8. desember.

Kvennakór Reykjavíkur söng á aðventukvöldi í Digraneskirkju 19. desember, þar sem safnað var fé til góðgerðarstarfsemi.

Kvennakór Reykjavíkur söng í fyrsta sinn í hámessu í Dómkirkju Krists Konungs í Landakoti á annan í jólum. Comments