Sagan‎ > ‎

2000

Hápunktur ársins var norrænt kvennakóramót sem haldið var í fyrsta sinn af Kvennakór Reykjavíkur 27. apríl – 1. maí og hátt í 1000 konur sóttu frá Íslandi og Norðurlöndunum.

Ýmir

Vígslutónleikar Ýmis, tónlistarhúss Karlakórs Reykjavíkur voru haldnir 30. janúar með tónleikahátíð Tónskáldafélags Íslands, þar sem flutt var tónlist frá fyrri hluta 20. aldar og þátttakendur voru Karlakór Reykjavíkur, Karlakórinn Fóstbræður, Kvennakór Reykjavíkur og Söngskólinn Hjartans mál. „Kvennakór Reykjavíkur flutti tvö hugljúf lög undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur, hið síðara við ómþýðan undirleik Þórhildar Björnsdóttur. Þetta voru Þó þú langförull legðir eftir Sigvalda Kaldalóns og Máríuvers eftir Pál Ísólfsson, og var þar greinilega sungið frá hjartanu.” Jónas Sen í DV 3. febrúar. „Kvennakór Reykjavíkur vígði húsið Maríu mey fyrir sitt leyti með fallegum söng” sagði í DV 31. janúar.

Æfingabúðir voru á Úlfljótsvatni 18. – 20. febrúar og var þar mikið vetrarríki, allt á kafi í snjó og brotist yfir mikla skafla á milli orlofshúsanna og Úlfljótsskála þar sem æfingar fóru fram. Miklar og góðar æfingar og frábær kvöldskemmtun voru á laugardagskvöldinu að vanda.

„Vorkvöld í Reykjavík”
Vortónleikar Kvennakórs Reykjavíkur, „Vorkvöld í Reykjavík”, voru haldnir í Ými og Langholtskirkju 8. og 11. apríl. Tvennir tónleikar voru haldnir 8. apríl, þar sem fyrri tónleikarnir voru í samvinnu við Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur og sungið sérstaklega fyrir eldri borgara. Píanóleikari, Þórhildur Björnsdóttir, fiðluleikari, Szymon Kuran og stjórnandi Sigrún Þorgeirsdóttir. Stjórnandi Senjoríta var Rut Magnússon. Ríkarður Ö. Pálsson, skrifaði um tónleikana í Mbl. 14. apríl: „Dugnaðarforkar...Hljómur kórsins í fyrstu atriðum, Siglingavísum (úts. Marteins H. Friðrikssonar), Krummavísum og Sofðu, unga ástin mín (bæði í radds. Jóns Ásgeirssonar), svo og í hinu hressilega Þjóðlífsmyndin (JÁ) var í einu orði sagt fullkominn...” „Kvennakór Reykjavíkur gaf í þessu létta en skemmtilega prógrammi vísbendingu um væntanlega sigra í viðameiri verkum, og verður myndarskapur hans með boðuðu kóramóti efalítið hérlendri kórmennt drífandi hvatning til frekari dáða á næstunni.”

Norrænt kvennakóramót haldið í fyrsta sinn


Tæplega 1000 konur komu saman til tónlistariðkunar. Boðið var upp á námskeið með Sibyl Urbancic, Diane Loomer, Karen Rehnqvist og Yvonne Kraal. Gestur mótsins var Kvennakór Glier-tónlistarskólans í Kiev í Úkraínu, sem hélt þrenna tónleika.
Allir þátttökukórar sungu á tónleikum víða um bæinn dagana sem mótið stóð og var myndarlega fjallað um hverja tónleika af gagnrýnendum Morgunblaðsins. Lokatónleikar mótsins voru haldnir í Valsheimilinu þar sem þátttakendur sungu saman en kórstjórar frá öllum löndunum sáu um flutning laga frá sínu heimalandi.
Á þessum tónleikum var frumflutt mótslagið „Sápukúlur” eftir Hildigunni Rúnarsdóttur við ljóð Steingerðar Guðmundsdóttur.
Sigrún Þorgeirsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Reykjavíkur, stjórnaði frumflutningi en hún var listrænn stjórnandi mótsins.


Snæfellsnes

Kvennakór Reykjavíkur hélt til Snæfellsness þann 6. maí og hélt tónleika í Stykkishólmskirkju og Grundarfjarðarkirkju. Með í för voru Þórhildur Björnsdóttir, píanóleikari og Szymon Kuran, fiðluleikari. Í lok ferðar var stoppað í Móteli Venus við Borgarfjarðarbrú, þar sem var sameiginlegt borðhald og afhentar viðurkenningar fyrir frábært starf við kvennakóramótið.

Á Kristnihátíð á Þingvöllum 1. til 2. júlí söng Kvennakórinn við lokaathöfn hátíðarinnar með sól í augum.

Í ágúst söng kórinn á verkalýðsráðstefnu Eflingar á Loftleiðahótelinu.

Endurskipulagning

Starfsemi Kvennakórs Reykjavíkur var endurskipulögð í september og sagði í bréfi frá formanni kórsins, Þuríði Pétursdóttur, til félaga í kórnum: „Í haust, við upphaf áttunda starfsárs Kvennakórs Reykjavíkur, urðu nokkrar breytingar á skipulagi kórastarfsins. Fram að þessu hefur Kvennakórinn séð um og borið ábyrgð á rekstri fimm kóra með samtals 450 starfandi konum. Frá og með haustinu verða fjórir af þessum kórum sjálfstæðir og fjárhagslega og stjórnunarlega óháðir. Kvennakór Reykjavíkur, mun hér eftir sem hingað til, sjá um rekstur kórs eldri kvenna, Senjoríta og reka kórskóla. Kórarnir 5 hafa aðsetur í tónlistarhúsinu Ými og hefur tekist gott samstarf milli þeirra um notkun þess húss fyrir æfingar.”

Kvennakórinn söng á útgáfutónleikum í Háskólabíói, 26. nóvember, vegna útgáfu á hljómdiski Kristjáns Jóhannssonar og söng einnig um morguninn við messu í Hallgrímskirkju.

„Jól”

Jól, hljómdiskur Kvennakórs Reykjavíkur, kom út í nóvember. Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópransöngkona, söng með kórnum á diskinum. Í Mbl. 6. desember og DV 23. desember komu góðir dómar um diskinn.


 

Aðventutónleikar Kvennakórsins 3. og 5. desember í Hallgrímskirkju

Kórkonur komu nú fram í nýjum kórbúningum. Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópran og Soffía Stefánsdóttir, alt, sungu með kórnum. Monika Abendroth lék á hörpu, Ásgeir Steingrímsson á trompet og Douglas Brotchie lék á stóra Klaasorgelið.

Í Mbl. 5. desember kom dómur um tónleikana eftir Ríkarð Örn Pálsson, þar sem hann skrifar m.a. „Ljúfir söngvar hljóma. Fyrstu aðventutónleikar ársins hófust sl. sunnudagskvöld þegar Kvennakór Reykjavíkur svo til fyllti Hallgrímskirkju..... Og stærsti, fremsti og fallegast hljómandi kvennakór landsins er vissulega, að öðrum tónmiðlum ólöstuðum, ekki verst fallinn til að laða fram þann englasöng á jörðu sem þegar á fyrri tugaldamótum grætti margt grjóthart rauðavíkingshjartað...”.

Sungið var við messu í Fríkirkjunni 11. desember og einnig var upptaka fyrir sjónvarpið sama dag. 

Í fyrsta sinn var styrktarfélögum boðið á hinn árlega jólasamsöng með súkkulaði og piparkökum sem var að þessu sinni haldinn í Ými 13. desember og 1. alt, sem sá um skemmtunina, frétti fyrst af fjölda gesta er þeir hófu að streyma að og varð að hafa öll spjót úti til að hafa nóg handa öllum. Senjorítur, kórskóli og Kvennakór Reykjavíkur sungu fyrir gesti.

Á annan í jólum söng kórinn við messu í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti, sem er orðinn ómissandi hluti af jólahátíðinni.

Comments