Sagan‎ > ‎

2001

Æfingabúðir í Munaðarnesi voru 2. til 4. mars.
Talsverður snjór og fagurt veður var í Borgarfirðinum og mikið æft fyrir skemmtunina „Frá Bítlum til Abba”.

„Frá Bítlum til Abba”

Tónleikarnir „Frá Bítlum til Abba” voru fluttir fjórum sinnum í Íslensku óperunni frá 19. til 21. mars. Jóhanna Jónas leikstýrði kórnum og lífgaði upp á sviðsframkomuna með sólgleraugum og bleikum baðhettum. Páll Rósinkranz var einsöngvari og söng m.a. Bláu augun þín" þannig að varla var þurrt auga í salnum.

„Requiem”

„Requiem” eftir Szymon Kuran var flutt í Kristskirkju 20. apríl og 1. maí af félögum úr Kvennakór Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur og Drengjakór Laugarneskirkju. 
„Þáttur kóranna var ekki lítill og víða var söngurinn hrífandi fagur.“ sagði Jónas Sen í DV 3. maí. Í umsögn Valdemars Pálssonar í Mbl. 29. maí 2001 um geislaplötuna „Requiem“: „Í Lacrymosa fá drengjaraddirnar enn að skína í samhljómi við einleiksfiðlu og slagverk.” Reyndar var um raddir Kvennakórs Reykjavíkur að ræða en það sannar hve bjartar og tærar þær voru að ruglað var saman kven- og drengjaröddum!

„Smávinir fagrir“

Senjorítur héldu vortónleika sína í Langholtskirkju 20. maí. Gestur tónleikanna var Kvennakór Reykjavíkur og sungu kórarnir nokkur lög saman. Þann sama dag voru vortónleikar Kvennakórs Reykjavíkur „Smávinir fagrir“ haldnir í Langholtskirkju. Um tónleikana sagði Jón Ásgeirsson í Mbl. 23. maí: „Kvennakór Reykjavíkur söng þessi elskulegu tónverk, af mikilli gleði og voru tónleikarnir í heild einstaklega fallegir, sérstaklega fyrir fágaðan og látlausan flutning kórsins undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur. Undirleikarinn Svana Víkingsdóttir og flautuleikarinn Kolbeinn Bjarnason felldu sitt tóntak einstaklega vel inn í hljóman kórsins og áttu þátt í þessum ánægjulegu og léttu tónleikum Kvennakórs Reykjavíkur.“ 

Hátíðardagskrá við Austurvöll á 17. júní.
Kvennakór Reykjavíkur söng hefðbundna dagskrá er blómsveigur var lagður að minnisvarða Jóns Sigurðssonar fyrir hádegi þann 17. júní. 

Á haustönn í september tók Þóra Fríða Sæmundsdóttir til starfa sem píanóleikari kórsins.

„Söngvasveigur“

Aðventutónleikar kórsins voru í Hallgrímskirkju 9. og 11. desember og nefndust „Söngvasveigur“ eftir tónverki Benjamin Brittens. Á tónleikunum var frumflutt nýtt verk Da pacem domine sem Bára Grímsdóttir samdi sérstaklega fyrir kórinn.
Ríkarður Ö. Pálsson skrifaði í Mbl. 13. desember: „Balkanskur hrynseiður“ „Innblásið stríðsáraverk Brittens [A Ceremony of Carols] var eyrnayndi í fremstu röð“ „Kórinn söng þetta allkrefjandi en samt miðilsvæna verk [Da pacem Domine] mjög vel...“ 

Jólasamsöngur

Jólasamsöngur var haldinn í Ými 13. desember fyrir styrktaraðila og aðra gesti. Kvennakór Reykjavíkur, Senjorítur og kórskóli sungu fyrir gesti ásamt því að allir sungu saman jólalög og á annan í jólum söng Kvennakór Reykjavíkur við hámessu í Dómkirkju Krists konungs, Landakoti.Comments