Sagan‎ > ‎

2002

Æfingabúðir í Munaðarnesi voru 8. til 10. mars þar sem vortónleikar og tónleikaferð til Tékklands voru undirbúin af kappi. Á félagsfundi var vakið máls á afmælisnefnd til að sjá um 10 ára afmæli kórsins.

Vortónleikar

Þann 28. apríl hélt Kvennakór Reykjavíkur vortónleika sína í Langholtskirkju og kom einnig fram sem gestur á tónleikum Senjoríta fyrr um daginn á sama stað.
Um tónleikana skrifaði Bergþóra Jónsdóttir í Mbl. í maí: „Hljómur kórsins var hreinn, tær og lifandi.“ 

Landsmót íslenskra kvennakóra

Frá 3. til 5. maí var 5. landsmót íslenskra kvennakóra haldið í Reykjanesbæ.
Þann 3. maí sungu Senjorítur á fyrri tónleikum mótsins í Keflavíkurkirkju og að tónleikum loknum var farið í Bláa lónið. Laugardaginn 4. maí var unnið í hópum, t.d. kenndi Jóhann Smári Sævarsson þindarvakningartækni. Tónleikum er áttu að vera um kvöldið var aflýst vegna veðurs, það buldi í tónleikahúsinu Dráttarbrautinni. Kvöldvaka var í umbreyttu íþróttahúsi, matur, skemmtiatriði og dans. Sunnudaginn 5. maí voru síðari tónleikar mótsins í íþróttahúsinu og þar söng Kvennakór Reykjavíkur sína efnisskrá. Einnig komu vinnuhóparnir fram og sungin sameiginleg lög. Þrettán kórar tóku þátt í mótinu með yfir 400 þátttakendum og mun þetta vera fjölmennasta kvennakóramótið frá upphafi.

Brottfarartónleikar

Kvennakór Reykjavíkur söng í Álverinu í Straumsvík fyrir starfsmenn 14. maí og þann 29. maí var efnt til Vorfagnaðar þar sem Tónlistarhúsið Ýmir var kvatt með síðustu tónleikum Kvennakórs Reykjavíkur fyrir keppnisferð til Tékklands. Söng kórinn keppnisdagskrá fyrir bæði almennan kvennakóraflokk og þjóðlagaflokk. Auk þess sungu hópar úr kórnum tónlist af léttara taginu þar sem rifjuð voru upp lög af Bíótónum og Frá Bítlum til Abba. Veitingar voru seldar til styrktar ferðasjóði.

Tékklandsferð og þátttaka í kórakeppni í Olomouc, 3. til 9. júní.

Aðfaranótt 3. júní var lagt af stað og komið snemma morguns til Prag. Byrjað var á þriggja tíma skoðunarferð, gangandi, um borgina. Þreyttir ferðalangar komu á Parkhótel að því loknu. 

4. júní voru vellukkaðir tónleikar í Nikulásarkirkju og síðan léttur málsverður á Restaurant Reykjavík. Fóru flestir að sjá La Traviata í Þjóðaróperunni um kvöldið. 


5. júní var frí og var borgin skoðuð betur. 6. júní var ekið til Olomouc og gist á Flora hóteli og þann 7. júní sungið í Husuv sbor kirkjunni.


8. júní var vaknað kl. 6 og mætt í morgungöngu. Kórinn keppti kl. 09:20 í kvennakóraflokki í Moravske divadlo og kl. 14:40 í Armadní dum í þjóðlagaflokki.
Klukkan 16 var löng og illskiljanleg verðlaunaafhending í vetraríþróttahöll, þar sem Sigrún gekk tvisvar fram á gólfið til að taka við silfurpeningi sem kórinn fékk bæði fyrir kvennakórasöng og almennan kórsöng á þjóðlögum. Alls tóku 197 kórar eða um 7000 manns þátt í keppninni. Mikið rigndi þennan keppnis- og sigurdag, en kjólarnir stóðust öll áföll. Um kvöldið voru miklir og flottir tónleikar í Redutasalnum þar sem gullverðlaunahafar sýndu listir sínar. 9. júní var haldið til sveitabýlis Þóris ræðismanns og þar drukkið freyðivín og borðaðar kræsingar. Skemmtiatriði að hætti Kvennakórs Reykjavíkur héldu öllum hugföngnum (ekki síst hundinum sem vildi taka þátt) þar til kominn var tími að halda út á flugvöll. Tékkar höfðu ekki áhuga á að selja okkur meiri kristal, verslanir í flughöfninni voru lokaðar við brottför. „Það er sérstaklega athyglisvert hve íslenskir kórar sem hafa keppt við erlenda kóra í kórsöng hafa náð góðum árangri. Síðast bárust fréttir af Kvennakór Reykjavíkur sem vann til tvennra silfurverðlauna í keppni í Tékklandi.“ Lesb. Mbl. 22. júní.Kórinn söng í Vetrargarðinum, Smáralind, þann 26. júní, þegar Haraldi Erni Ólafssyni fjallgöngukappa var fagnað við komuna til landsins.

Í september var afmælisnefnd í tilefni af 10 ára afmæli kórsins formlega stofnuð og mönnuð:
Hafdís Hannesdóttir, formaður
Elísabet Einarsdóttir, ritari
Andrea Haralds, hönnuður sýningar
Rannveig Pálsdóttir
Hrönn Hjaltadóttir
Hjördís Ólafsdóttir
Elín Jóhanna Elíasdóttir
Sigrún Þorgeirsdóttir
Nefndin hélt reglulega fundi allt haustið, þar sem afmælissýning, hátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur, fáni kórsins og margt fleira var undirbúið.

Nýtt æfingahúsnæði
Fyrsta æfing á haustönn var 4. september í nýju húsnæði að Borgartúni 28, 4. hæð, en Senjorítur æfðu hins vegar í Sóltúni 20.

Jólakort
Í nóvember voru jólakort prentuð í tilefni 10 ára afmælis kórsins og prýddu kortin myndir Andreu Haralds frá fyrri aðventutónleikum og forsíðu geisladisksins Jól. Þetta er í annað sinn sem kórinn gefur út jólakort.

Þann 2. nóvember söng Kvennakór Reykjavíkur á árshátíð Flytjanda í Súlnasal Hótel Sögu. Við innganginn fengu gestir rósir frá Kvennakórskonum og sungu þær ýmis lög í stiganum. 

Þann 24. nóvember söng Kvennakór Reykjavíkur við messu í Breiðholtskirkju þar sem haldið var upp á 10 ára afmæli mömmumorgna.

„Vort líf, vort ljós“ 

Aðventutónleikar í Langholtskirkju, 28. nóvember og 30. nóvember.
Þetta voru hressilegir tónleikar með gospel söngvum, negrasálmum og jólalögum.
Um tónleikana skrifaði Jónas Haraldsson í DV 30. nóvember: “Það var komin jólastemning í kirkjuna, kórinn í stuði og áheyrendur vel með á nótunum. Kvennakórinn fékk verðskuldaðar þakkir og uppklapp í tónleikalok.” Starfsárinu lauk með því að Kvennakór Reykjavíkur söng við Kópamessu í Kópavogskirkju 8. desember. Hinn árlegi jólasamsöngur Kvennakórs Reykjavíkur og Senjorítanna ásamt gestum þeirra var í safnaðarheimili Grensáskirkju sem var full lítið fyrir kórana og gesti þeirra. Súkkulaði og piparkökur að vanda.

Kvennakór Reykjavíkur söng við hámessu í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti að venju á annan í jólum.

Comments