Sagan‎ > ‎

2003

Fjölbreytt og metnaðarfullt 10 ára afmælisár Kvennakórs Reykjavíkur.

Hátíð og sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur 

Þann 25. janúar voru 10 ár liðin frá fyrstu æfingu Kvennakórs Reykjavíkur. Kórinn efndi af því tilefni til afmælisveislu í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Tíu ár er ekki langur tími í sögu kórs, en þeim sem hafa starfað með Kvennakór Reykjavíkur frá upphafi finnst þetta stór áfangi. Afmælishátíðin hófst með mikilli sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem sagan var rakin í máli og myndum. Það var ógleymanlegt að heyra alla kórana sem spruttu upp úr grasrótinni, syngja hvern fyrir sig og svo alla kórana saman í lokin. Þarna komu fram auk Kvennakórs Reykjavíkur, Gospelsystur Reykjavíkur og Vox feminae undir stjórn Margrétar Pálmadóttur, Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur undir stjórn Jóhönnu Þórhallsdóttur og Senjoríturnar undir stjórn fyrrverandi stjórnanda, Rutar Magnússon og núverandi stjórnanda, Sigrúnar Þorgeirsdóttur. Síðast en ekki síst komu fram „gömlu kórarnir", þ.e. kór skipaður kórfélögum áranna 1993-97 undir stjórn Margrétar og annar skipaður kórfélögum áranna 1997 til 2003 undir stjórn Sigrúnar. Kvennakór Reykjavíkur starfrækir enn kórskóla og Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur, en Vox Feminae, Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur og Gospelsystur Reykjavíkur sem hófu sína starfsemi undir verndarvæng Kvennakórs Reykjavíkur, starfa nú algjörlega sjálfstætt. Fyrsta stjórnanda kórsins, Margréti J. Pálmadóttur, sem var driffjöðrin í starfi kórsins fyrstu árin, var þakkað brautryðjendastarfið og hún gerð að fyrsta heiðursfélaga kórsins. 
Hátíðarfáni afhjúpaður

Á afmælishátíðinni var afhjúpaður hátíðarfáni með merki kórsins.  Nunnurnar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði saumuðu hann fyrir okkur og tókst mjög vel til. Undirbúningsvinnu unnu Andrea Haralds og Hafdís Hannesdóttir.

Gígjan

Kvennakór Reykjavíkur söng á stofnfundi Sambands íslenskra kvennakóra
Laugardaginn 5. apríl var haldinn stofnfundur Sambands íslenskra kvennakóra á Grand Hótel Reykjavík. Um það bil 2000 konur syngja í kvennakórum á Íslandi og hafa fjölmennustu kórarnir yfir 100 félaga. Sambandið hlaut nafnið Gígjan. Á stofnfundinum var opnuð heimasíða Gígjunnar.

„Ég hlusta á þær glóa“

Tónleikar í Langholtskirkju fimmtudaginn 8. maí og sunnudaginn 11. maí. 
Áfram var haldið með 10 ára afmælishátíð kórsins. Í því tilefni, en kórinn var formlega stofnaður 8. maí 1993, var frumflutt nýtt verk eftir Misti Þorkelsdóttur: „Ég hlusta á þær glóa: Árstíðasvipmyndir við ljóð eftir Hannes Pétursson. Fyrir „glóandi“ konur Kvennakórs Reykjavíkur á 10 ára afmælisári“. Þá var litið yfir farinn veg og flutt a.m.k. eitt lag frá hverju starfsári kórsins og öll þau verk, sem samin hafa verið sérstaklega fyrir kórinn. Stjórnandi var Sigrún Þorgeirsdóttir og píanóleikari Þóra Fríða Sæmundsdóttir. 

Í Morgunblaðinu laugardaginn 10. maí mátti lesa umsögn Jóns Ásgeirssonar um hvernig til tókst. Þar sagði meðal annars:  „Kvennakór Reykjavíkur er í góðu formi. Það var gott jafnvægi á milli radda og framburður texta til fyrirmyndar. Auðheyrt er að Sigrún er snjall söngstjóri og naut hún vel meðfylgjandi undirleiks Þóru Fríðu Sæmundsdóttur. Það stóra á þessum tónleikum, bæði er varðar flutning og gerð verksins, var frumflutningurinn á kórverki Mistar, Ég hlusta á þær glóa“.

Menningarnótt Reykjavíkur

Kvennakór Reykjavíkur söng við setningu Menningarnætur Reykjavíkur á torginu við Ingólfsnaust (á horni Aðalstrætis og Vesturgötu) laugardaginn 16. ágúst. Kórinn flutti m.a. hluta af verki Mistar Þorkelsdóttur, Ég hlusta á þær glóa, sem kórinn frumflutti í vor. Athöfnin var í beinni útsendingu á Rás 2 ríkisútvarpsins.

Kórarnir í nýju húsnæði

Haustönn hófst þann 25. ágúst í Hátíðarsal Sjómannaskólans, við Háteigsveg.  Kórstjóri Kvennakórs Reykjavíkur og Senjoríta var sem fyrr Sigrún Þorgeirsdóttir. Einnig var starfræktur kórskóli undir stjórn Sigrúnar.


„Ævintýri enn gerast!“

Páll Óskar Hjálmtýsson söng með Kvennakór Reykjavíkur gömul dægurlög frá sjötta og sjöunda áratugnum við hljómsveitarundirleik Vignis Stefánssonar, Gunnars Hrafnssonar og Ólafs Hólm undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur. Tónleikarnir voru haldnir í Austurbæ við Snorrabraut 16. og 17. október kl. 19:30 og 22:00 báða dagana. Á þessum tónleikum hófst hið ánægjulega samstarf Vignis Þórs Stefánssonar og Kvennakórs Reykjavíkur.

Kvennakór Reykjavíkur söng á tvennum „stórtónleikum“ ásamt öðrum listamönnum, til styrktar UMFÍ í Hallgrímskirkju, í mars og til styrktar BUGL í Grafarvogskirkju, í nóvember.„Afmælisári lokið með glans“

„Einn þeirra kóra sem sett hafa svip á tónleikahald landsmanna undanfarin ár er Kvennakór Reykjavíkur. Hann hefur fætt af sér 6 aðra starfrækjandi kvennakóra. Kórinn hefur á þessu ári fagnað 10 ára afmæli sínu og lýkur afmælisári með tónleikum í Langholtskirkju á morgun og tónleikarnir hafa yfirskriftina Jólaperlur“. Fréttatilkynning í MBL 6. desember.


„Jólaperlur“

Á efnisskrá aðventutónleikanna voru mörg verk sem kórinn hafði flutt undanfarin 10 starfsár. Fjögur laganna voru flutt á jólum 1993 en jafnframt voru nokkur lög á efnisskrá kórsins í fyrsta sinn. Vel var við hæfi að Sigrún Hjálmtýsdóttir lyki þessu afmælisári með kórnum, því hún hefur verið hluti af þessu ævintýri, með því að syngja á fjölmörgum tónleikum kórsins, fylgt kórnum í tvær utanlandsferðir og sungið með kórnum á geisladisknum Jól. Stjórnandi tónleikanna var Sigrún Þorgeirsdóttir. Hljóðfæraleikarar á þessum tónleikum voru Þóra Fríða Sæmundsdóttir píanóleikari og Kolbeinn Bjarnason flautuleikari.   


Comments