Sagan‎ > ‎

2005

Árið var viðburðaríkt fyrir Kvennakórinn, því fyrir utan hefðbundna vor- og aðventutónleika, tók kórinn þátt í 6. landsmóti íslenskra kvennakóra, sem að þessu sinni var haldið í Hafnarfirði 29. apríl til 1. maí. Að auki fór kórinn í utanlandsferð um haustið. 

6. landsmót íslenskra kvennakóra 29. apríl til 1. maí

Mótið var haldið í Hafnarfirði og mótshaldarar voru konur í Kvennakór Hafnarfjarðar. Mótið hófst að kvöldi  29. apríl með óvissuferð um Hafnarfjörð, undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar, með viðkomu í Safnaðarheimili Garðakirkju og endaði í Hellisgerði. Karlakórinn Þrestir sá um að bera fram veitingarnar.

Að því loknu var samsöngur kóranna í Íþróttahúsi Hafnarfjarðar. Um 400 konur sóttu þetta mót úr 14 kórum, þar af var Kvennakór Kaupmannahafnar, sem er alíslenskur kvennakór. Á laugardeginum var unnið í vinnuhópum og um eftirmiðdaginn voru tónleikarí Víðistaðakirkju, þar sem allir kórarnir sungu fyrir áheyrendur og hver fyrir annan. Á sama tíma undirbjó Kvennakór Reykjavíkur 1. maí kaffi BSRB! Á sunnudeginum var áfram unnið í vinnuhópum og að lokum voru tónleikar í Íþróttahúsinu við Strandgötu þar sem hóparnir sungu og að lokum sungu allir sameiginleg lög. (Konur úr Kvennakór Reykjavíkur sem ekki tóku þátt í mótinu og áhangendur, sáu um 1. maí kaffið á meðan.)


Vortónleikar í Grafarvogskirkju 8. maí

 Tónleikarnir hófust með tveimur lögum eftir Tryggva Baldvinsson og síðan þjóðlög í útsetningu Hildigunnar Rúnarsdóttur. Höfuðborgin okkar, Reykjavík, fékk sinn stað í dagskránni og söng kórinn fjögur lög sem fjalla um borgina, þar af tvö í nýrri útsetningu Aðalheiðar Þorsteinsdóttur. Seinni hluti tónleikanna var að mestu helgaður erlendum tónsmíðum. Þar á meðal voru flutt þjóðlög frá Finnlandi og Svíþjóð. Einnig söng kórinn Song of the Bell eftir sænska tónskáldið Daniel Helldén við ljóð Longfellow og Tango in 5 eftir Söndru Milliken. Tónleikunum lauk síðan á fjórum lögum eftir Jón Ásgeirsson við ljóð Halldórs Laxness. Hljóðfæraleikarar: Vignir Þór Stefánsson píanó og Sigurður Flosason saxófónn.

17. og 19. júní

Þann 17. júní vorum við með hálftíma tónleika í Ráðhúsi Reykjavíkur og 19. júní söng kórinn á Þingvöllum í tilefni af 90 ára kosningarétti kvenna. Sungið var í Almannagjá í grenjandi rigningu meðan konur gengu fylktu liði á Þingvöll. Á hátíðarsviðinu sungu Sigrún Hjálmtýsdóttir og Kvennakór Reykjavíkur milli atriða baráttudagskrár.

Söngferðalag til Finnlands, Eistlands og Svíþjóðar

Um haustið stefndi kórinn á norrænt kvennakóramót er skyldi haldið í Svíþjóð, en Svíar hættu við og í staðinn var ákveðið að fara í söngferðalag til Finnlands, Eistlands og Svíþjóðar 19. – 25. september. Flogið var til Helsinki og þar tóku sendiherrahjónin, Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram, á móti okkur. Síðan var haldið til Lahti, sem er borg á stærð við Reykjavík með um 100 þúsund íbúa. Þar skoðuðum við Sibelius Talo sem er alveg frábært tónleikahús og hlustuðum á æfingu á  Brandenborgarkonserti eftir Bach. Tónleikar voru haldnir í kirkjunni í Hollola sem er bær rétt norðan við Lahti. Á leið okkar til Eistlands komum við aftur til Helsinki og héldum tónleika í Klettakirkjunni. Í Tallinn voru haldnir tónleikar kallaðir „Northern lights” með um 100 norskum kórsystrum í Midt-Norsk Damekor. Til Svíþjóðar var haldið 24. september og sendiherrahjónin í Stokkhólmi Svavar Gestsson og Guðrún Ágústsdóttir heimsótt. Þar voru þáðar veitingar og kórinn söng fyrir gestgjafana. Guðrún hélt síðan með hópinn í kynnisferð um Gamla Stan. Lokatónleikar Kvennakórs Reykjavíkur í þessari ferð voru haldnir í gamla Ráðhússalnum í Uppsala.


Nýr geisladiskur Kvennakórs Reykjavíkur


Kvennakór Reykjavíkur hefur gefið út nýjan geisladisk sem ber nafnið Konur. Á diskinum eru eingöngu íslensk tónverk og eru sex þeirra samin fyrir Kvennakór Reykjavíkur og hin sérstaklega útsett fyrir kvennakór. Þessi diskur er afrakstur starfs Kvennakórs Reykjavíkur frá fyrstu tíu ára sögu hans. Með því að panta ný verk, láta útsetja önnur fyrir kórinn og gefa síðan út á geisladiski, er verið að framfylgja einu aðalmarkmiði kórsins, sem er að efla íslenskan kvennakórasöng og kynna íslensk tónverk fyrir kvennakór. Nafn disksins, Konur, er dregið af verki Þorkels Sigurbjörnssonar við ljóð Jóns úr Vör en það er eitt sex verka sem hafa verið sérstaklega skrifuð fyrir Kvennakór Reykjavíkur. 

Konur er jafnframt fyrsta verk sem kórinn fékk skrifað fyrir sig og er frá árinu 1996. Salve Regina eftir Hjálmar H. Ragnarsson er skrifað skömmu síðar, en það var pantað í tilefni ferðar kórsins til Ítalíu 1996. Barnagæla eftir Ólaf Axelsson við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur er kveðjugjöf Svönu Víkingsdóttur, píanóleikara til kórsins 1998, en Kvennakór Reykjavíkur naut starfskrafta Svönu fyrstu árin. Hildigunnur Rúnarsdóttir skrifaði Sápukúlur, við ljóð Steingerðar Guðmundsdóttur, fyrir fyrsta norræna kvennakóramótið sem kórinn stóð fyrir á Íslandi árið 2000 og var lagið sungið þar af öllum þátttakendum mótsins, tæplega 1000 konum. Þegar til stóð að taka þátt í kórakeppni í 
Tékklandi var Da Pacem Domine eftir Báru Grímsdóttur pantað og haft með í för. Vakti verk Báru mikla athygli og kom kórinn heim með tvenn silfurverðlaun í farteskinu. Á tíu ára afmæli Kvennakórs Reykjavíkur árið 2003 samdi Mist Þorkelsdóttir verkið Ég hlusta á þær glóa að beiðni kórsins. Þetta eru 5 lög við ljóð Hannesar Péturssonar og mynda eina heild og tengist hvert lag sinni árstíð, þar er byrjað á sumri og árinu fylgt þar til nýtt sumar er komið.
Síðastliðið vor útsetti Hildigunnur Rúnarsdóttir tvö íslensk þjóðlög fyrir kórinn, en þau eru Vinaspegill og Ástarraunir. Lög Tryggva M. Baldvinssonar, Krummi og Ektamakinn elskulegi, lög Jóns Ásgeirssonar úr Húsi skáldsins ásamt útsetningu Hildigunnar á Hættu að gráta hringaná og lagi Mistar Spinna minni hafa öll náð að tengjast kórstarfinu með sérstökum hætti. Útgáfutónleikar voru þann 1. október í Breiðholtskirkju. Þetta er þriðji geisladiskur kórsins, en áður hafa komið út Víf (1997) og Jól (2000).

Októberfest

Þann 22. október var Októberfest með þýsku bjórívafi, Karlakórinn Þrestir voru gestir okkar. Mikið stuð eins og vanalega.

Frá ljósanna hásal

Kvennakór Reykjavíkur og Karlakórinn Þrestir héldu aðventutónleika 4., 6. og 10. desember. Dagskráin var þríþætt. Kvennakórinn söng nokkur jólalög sem og karlakórinn, en að lokum sameinuðust kórarnir og sungu Þýska messu eftir Schubert og kunn jólalög úr ýmsum áttum. Þarna var því boðið uppá fjölbreyttan kórsöng: Kvennakór, karlakór og blandaðan kór þar sem allir gátu komust í jólaskap á aðventunni. Tónleikarnir voru haldnir í Grafarvogskirkju og Víðistaðakirkju.


Jólasamsöngur 8. desember í Glæsibæ
Jólasamsöngur fyrir styrktarfélaga var haldinn 8. desember í Glæsibæ. Senjorítur og Kvennakórinn sungu fyrir og með gestum.

Annar í jólum
Hefðbundinn endir á söngárinu: Söngur í Kristskirkju Landakoti annan í jólum.

Comments