Sagan‎ > ‎

2007

Á þessu ári varð sú nýbreytni að stofnaður var kammerkór innan Kvennakórs Reykjavíkur sem hélt sjálfstæða tónleika í byrjun árs og um vorið var farið í tónleikaferð til Frakklands og Ítalíu.„Um ást“

Kammerkór Kvennakórs Reykjavíkur undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur hélt tónleika í Laugarneskirkju sunnudaginn 25. febrúar. Kammerkórinn er 20 manna hópur úr Kvennakór Reykjavíkur sem hefur starfað frá miðjum október á síðasta ári. Á efnisskránni voru annars vegar madrigalar frá 16. og 17. öld eftir höfuðtónskáld Breta á þessum tíma s.s. Weelkes, Dowland og Purcell. Hinn hluti tónleikanna voru nýleg verk eftir tónskáld frá Bandaríkjunum, Kanada og Nýja Sjálandi. Ljóðin eru oftast eftir eldri skáld s.s. Yeats, Rossetti, Blakes og Shelley og hér er þemað einnig ástin. Í stað efnisskrár kynntu kórkonur lögin og tónskáldin. Meirihluti dagskrárinnar var sunginn án undirleiks, en í nokkrum lögum naut kórinn aðstoðar Arnar Magnússonar, píanóleikara.  


Æfingabúðir á Skógum. 
Nú var tekin sú ákvörðun að hafa æfingarbúðir í mars að Skógum undir Eyjafjöllum. Þar gistum við á hótelinu og fengum hlýjar móttökur starfsfólks, æfðum af kappi og skemmtu konur sér vel. 

Fyrsti maí
Að vanda sá kórinn um að BSRB menn gengju ekki svangir um á 1. maí. Kökuhlaðborðið var glæsilegt undir styrkri stjórn Ásdísar Hjálmtýsdóttur.

Vortónleikar

Þema vortónleikanna var vatn og kórinn söng um vatn í ýmsum myndum: Tár, regn, læki, ár og höf. Það var sérstök ánægja að frumflytja tvö ný lög eftir Tryggva M. Baldvinsson, tónskáld, sem hann samdi á vormánuðum fyrir kórinn. Lögin heita Næturregn og Sporin þín og eru samin við ljóð Davíðs Stefánssonar. Auk þessa voru á efnisskránni íslensk verk og erlend, gömul og ný.


Kórferðalag Kvennakórs Reykjavíkur til Frakklands og Ítalíu, 28. maí – 5. júní

            

Þann 29. maí var lagt af stað til Parísar og komið þangað seint um kvöldið. Við áttum að gista á herragarði en þar var ekki rúm fyrir okkur, höfðum við fyrir misskilning verið bókaðar mánuði síðar! Með milligöngu íslensku ferðaskrifstofunnar fengum við næturgistingu á góðu hóteli. Daginn eftir var örstutt skoðunarferð um París með Kristínu „Parísardömu“ og síðan sungið í Notre Dame kirkjunni víðfrægu, það var ógleymanleg stund. Einnig sungum við ættjarðarlög fyrir utan kirkjuna og glöddum gesti og gangandi. Að því loknu var okkur boðið í léttan hádegisverð til Tómasar Inga Olrich, sendiherra Íslands og áttum þar góða stund. Um kvöldið var haldið í næturlestina sem flutti okkur til Verona á Ítalíu. Lestin var fornfáleg og má með sanni segja að hópurinn hafi bókstaflega þjappað sér saman um nóttina. Í Veróna tók Alessia Romano, aðstoðarkona okkar, á móti okkur og lærðum við fljótt að hlýða henni og mæta á réttum tíma – til þess svo að bíða eftir einhverju sem við vissum ekki hvað var. Frá Verona héldum við til Loreto og dvöldum þar á hóteli í 3 nætur og það fór mjög vel um okkur. Kirkjan í Loreto með líkneskjunni Svörtu Maríu var dásamleg. Þar voru endalausar raðir af pílagrímum og við sungum þar við messu á laugardagsmorgni. Kóramótið var ekki beint formlegt, þarna voru jú nokkrir kórar og hittust kórarnir á hótelinu og sungu hver fyrir annan.

Þegar aðaltónleikarnir voru haldnir var kvennakórnum skipað að fara út í rútu strax eftir sinn söng, þannig að við misstum af kórsöng hinna kóranna. Áfram var nú haldið og lá leiðin til Rómar. Þar var farið í skoðunarferð. Tónleikar voru haldnir í Sant´Ignazio kirkjunni, þar sem Kvennakór Reykjavíkur söng sumarið 1996. Stórkostlegur hljómburður kirkjunnar færði okkur nær himnum, ásamt um 400 áheyrendum. Daginn eftir skoðuðum við Vatíkanið og Péturskirkjuna í fylgd leiðsögumanns. Enn einni dásamlegri og viðburðarríkri kórferð var lokið og flugum við heim að kvöldi 5. júní.  

Októberfest

Sigrún bauð konum og mökum í annað sinn heim til sín til októberfagnaðar.

Aðventutónleikar í Grensáskirkju 29. nóvember og 1. desember

Sungin voru kirkjuleg verk, íslensk og erlend, gospellög og jólasálmar. Sigrún Þorgeirsdóttir stjórnaði og Vignir Þór Stefánsson lék á píanó.


Jólasamsöngur fyrir styrktarfélaga Kvennakórsins 4. desember
Kvennakórinn og Senjorítur sungu fyrir gesti og einnig með þeim yfir súkkulaðinu.

Annar í jólum
Sungið við morgunmessu í Kristskirkju Landakoti.Comments