Senjorítur‎ > ‎

SaganHaustið 1995 stofnaði Margrét Pálmadóttir, kórstjóri Kvennakórs Reykjavíkur, kór fyrir konur 60 ára og eldri. Tilgangurinn var að gefa áhugasömum eldri konum tækifæri til að halda áfram að syngja eftir sextugt. Konur, sem um langt skeið höfðu sungið með ýmsum virtum kórum, en voru hættar, fögnuðu tilboði Margrétar og mættu á æfingu. Sennilega komu aðeins 18 konur á fyrstu æfinguna en fjölgaði um veturinn svo að á fyrstu tónleikunum sem Senjóríturnar tóku þátt í með Kvennakór  Hafnarfjarðar  mættu 25 konur og stóðu sig vel ! Enda var kórstjórinn frábær, Rut Magnússon.   Hún náði ótrúlega góðum tón úr þessum gömlu röddum. 

Rut Magnússon stjórnar

Margrét Pálmadóttir valdi nafnið á kórinn, Senjórítur, enda guðmóðir hans, en konur  voru lengi hálf-feimnar við nafnið, hafa þó vanist því og þykir núna bara gaman að því.
Senjórítunum fjölgað ört. Núna (á haustönn 2012) eru 62 konur skráðar í kórinn þar af hafa 10 konur sungið með frá byrjun.

Senjórítur sem hafa sungið með frá upphafi, Stykkishólmi 2010

Senjóríturnar tóku í byrjun þátt í tónleikum á vegum Kvennakórs Reykjavíkur, en í fyrsta skipti komu þær fram einar opinberlega á 10 ára afmælishátíð Félags eldri borgara í Laugardagshöllinni 14.mars 1996. Þar voru mættar 29 Senjórítur og sungu nokkur lög undir styrkri stjórn Rutar Magnússon.

Sungið í Laugardalshöll 1996.

Árið 1999 fóru Senjórítur til Hveragerðis og sungu þar með Söngsveit Hveragerðis, sem endurgalt heimsóknina vorið 2000 og söng með Senjórítum  í Grensáskirkju. Umsögn um tónleikana birtist í Morgunblaðinu og var mjög lofsamleg.

Senjórítur í safnaðarheimili Hveragerðiskirkju 1999

Það hefur verið venja kórsins að heimsækja ýmsar stofnanir og syngja fyrir og með íbúunum, á aðventu og einnig á vorin, þær hafa t.d. sungið 2svar á skemmtunum eldri borgara á Vitatorgi .Þær hafa líka sungið við messu í Breiðholtskirkju og í fleiri kirkjum við ýmis tækifæri.