Nýjasta nýtt

Vortónleikar Kvennakórs Reykjavíkur

posted May 15, 2017, 4:38 AM by Kolbrun HalldorsdottirÞað eru tónleikar framundan!
Kvennakór Reykjavíkur ætlar að fara um víðan völl á vortónleikum sínum þann 18. maí í Guðríðarkirkju. Eitt af því skemmtilegasta sem kórinn gerir er að takast á við allskonar tónlist og það mun hann sannarlega gera þetta vorið. Við reynum okkur við smellna þýðingu Þórarins Eldjárns á ABBA lagi úr Mamma Mia, Bítlarnir leggja til nokkur lög og aðdáendur Prúðuleikaranna verða ekki fyrir vonbrigðum. Við dustum rykið af óborganlegu skúringanúmeri og tökumst á við krefjandi klapp í White Whinter Hymnal. Ungversk, bandarísk, norsk, bresk og að sjálfsögðu íslensk lög eru á dagskránni og eru þau hvert öðru fallegra. Efnisskráin er í ætt við íslenskt sumarveður svo gestir ættu að vera við öllu búnir, með sól í hjarta.
Stjórnandi er Ágota Joó. 
Um undirleik sjá Birgir Bragason á Bassa, Erik Robert Qvick á slagverk og Vilberg Viggósson á píanó. 

Miðaverð: 3.000 kr í forsölu, 3.500 kr við innganginn. 
Miðar fást hjá kórkonum eða með því að senda tölvupóst á netfangið postur@kvennakorinn.is


Jólakveðja 2016

posted Dec 21, 2016, 8:45 AM by Kolbrun Halldorsdottir

Kvennakór Reykjavíkur óskar ykkur öllum gleðilegra jóla og  þakkar fyrir allar skemmtilegu stundirnar og stuðninginn á þessu viðburðarríka ári sem er að líða

Megi árið 2017 færa ykkur öllum

gleði í hjartað, hamingju, ást og tónlist <3


Viltu syngja með okkur?

posted Dec 15, 2016, 2:19 AM by Kolbrun HalldorsdottirKvennakór Reykjavíkur óskar eftir fleiri kórsystrum - sendu okkur póst á postur@kvennakorinn.is ef þig langar að vera með. 
Fyrsta æfing á nýju ári 2017 verður 9.janúar.
Við hlökkum til að heyra frá þér. 

Aðventutónleikar í Háteigskirku 27. nóvember

posted Nov 22, 2016, 9:07 AM by Kvennakór Reykjavíkur   [ updated May 3, 2017, 6:37 AM by Kolbrun Halldorsdottir ]


Kvennakór Reykjavíkur heldur tvenna aðventutónleika í Háteigskirkju, fyrsta sunnudag í aðventu, þann 27.nóvember.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl. 17 og þeir seinni kl. 20. 

Á efnisskrá eru lög sem tónleikagestir þekkja og munu án efa koma öllum í hátíðarskap. 
Þar má nefna hinn gullfallega sálm Kolbeins Tumasonar frá 13. öld, Heyr himnasmiður, við lag Þorkels Sigurbjörnssonar, Jólaköttur Jóhannesar út Kötlum við lag Ingibjargar Þorbergs í útsetningu Vilbergs Viggósonar sem einnig útsetti fyrir kórinn lag eftir Eyvör, Dansaðu vindur. Þá má einnig nefna gamlan vin, Gloríu eftir Vivaldi, Gaudeamus Hodie, Bæn Arons og fleiri perlur sem fylla efnisskrána. 

Í kjölfar hvorra tónleika um sig, býður Kvennakór Reykjavíkur gestum að staldra við í safnaðarheimili Háteigskirkju og þiggja léttar og jólalegar veitingar, spjalla og njóta samveru.

Stjórnandi er Ágota Joó, um undirleik sjá þeir Vilberg Viggósson á píanó, Hávarður Tryggvason á kontrabassa, Sigurgeir Agnarsson á Selló og Zbigniew Dubik á fiðlu. 

Miðaverð er 3.000 kr í forsölu og 3.500 kr við innganginn og fást miðar hjá kórkonum, í síma 8966468 eða í gegn um netfangið postur@kvennakorinn.is

Hlökkum til að sjá ykkur.

Fyrsta æfing haustannar 2016

posted Sep 30, 2016, 7:53 AM by Kolbrun Halldorsdottir

Kvennakór Reykjavíkur er kominn heim eftir frægðarför til Spánar þar sem kórinn tók þátt í alþjóðlegri kórakeppni á Lloret de mar. Kórinn fékk gulldiplómu í öllum þeim flokkum sem hann tók þátt í. 
Það eru því eldheitar og sprækar kórkonur sem hefja spennandi haustönn á mánudaginn 3.október. Við viljum endilega fá að deila gleðinni og bjóðum því nýjar kórkonur hjartanlega velkomnar. Ef þig langar til að taka þátt í skemmtilegu og fjölbreyttu kórstarfi og ert á aldrinum 20 - 50 ára, hafðu þá samband með því að senda tölvupóst á postur@kvennakorinn.is.

Við hlökkum til að heyra frá þér.

Vortónleikar miðvikudaginn 4.maí kl. 20

posted Apr 22, 2016, 1:33 AM by Kvennakór Reykjavíkur


Með mikilli tilhlökkun og eftirvæntingu undirbýr Kvennakór Reykjavíkur sig fyrir vortónleika, sem haldnir verða í Langholtskirkju 4. maí n.k. Kórkonur hafa lagt á sig óvenju mikla vinnu við að gera dagskrá vortónleikanna sem glæsilegasta. Ástæðan er sú að kórinn mun taka þátt í keppni sem haldin verður í Lloret de Mar á Spáni 12. – 19. september. Vortónleikagestir munu njóta þeirrar fjölbreyttu tónlistar er þar verður flutt. Eins og oft áður er víða komið við og sungin lög úr ýmsum heimshornum. Þar má nefna tvö lög frá Katalóníu, Canco del pescador de llunes og El ball de Sant Ferriol, Las Amarillas frá Mexíkó, O mio Babbino caro frá Ítalíu, frá Lapplandi hið gullfallega Eatnemen Vuelie og hið magnaða ungverska verk Éjszaka eftir Karai József. Íslenskar perlur eru einnig á efnisskránni, svo sem Salve Regina, sem Hjálmar H. Ragnarsson samdi sérstaklega fyrir Kvennakór Reykjavíkur á sínum tíma, Spinna minni eftir Mist Þorkelsdóttur og Sköpun, fæðing, skírn og prýði eftir Huga Guðmundsson. Þá eru ótalin lög eftir Björn og Benny í Abba, John Lennon, Burt Bacharach og Ómar Ragnarsson svo nokkrir séu nefndir. Það er von okkar að þessi fjölbreytta dagskrá gleðji tónleikagesti okkar og blási þeim vori í brjóst. 

Miðaverð: 3.000 kr í forsölu / 3.500 við innganginn. 
Miðar fást hjá kórkonum, í síma 896 6468 eða á netfanginu postur@kvennakorinn.is

Sjáumst í sumarskapi í Langholtskirkju

VIVA LA DIVA - Nýárstónleikar Kvennakórs Reykjavíkur

posted Jan 5, 2016, 3:38 AM by Kolbrun Halldorsdottir

"Viva la diva"
 
Í vetur bregður Kvennakór Reykjavíkur út af vana sínum og heldur nýárstónleika í stað jólatónleika. Laugardaginn 16. janúar mun kórinn halda tvenna tónleika sem verða í Tjarnarbíói kl. 16:00 og kl. 20:00. Þar mun kórinn fagna nýju ári með flutningi á fagurrri tónlist í anda nýársgleðinnar. Upphafin verður dívan sem býr innra með öllum konum og sungið verður meðal annars um Dóná svo bláa, staldrað við í Brúðkaupi Fígarós, hjá hinni blóðheitu Carmen og einnig hjá Kátu ekkjunni. Einnig verður sungið um ástina, draumaprinsa og dramatík og ættu flestir að þekkja vel valin lög á dagskránni, en þar eru perlur eftir m.a. Adele, Queen, Ennio Morricone, Arthur Hamilton og fleiri. Stjórnandi kórsins er Ágota Joó og undirleik og hljómsveitarstjórn annast Vilberg Viggósson.
 
Við bjóðum vini og velunnara hjartanlega velkomna á tónleikana og bendum á að best er að fá miða hjá kórkonum sjálfum eða með því að senda tölvupóst á netfangið postur@kvennakorinn.is. Miðaverð í forsölu er kr. 3.000 en við innganginn kostar miðinn kr. 3.500.
 


Kvennakór Reykajvíkur leitar að söngkonum

posted Aug 14, 2015, 7:19 AM by Kolbrun Halldorsdottir


Móðir, kona, meyja - Vortónleikar Kvennakórs Reyjavíkur

posted Apr 21, 2015, 4:44 AM by Kolbrun Halldorsdottir


Kvennakór Reykjavíkur fagnar langþráðu vori og býður þig hjartanlega velkomna á tónleika í Gamla bíói, fimmtudaginn 7.maí kl. 20:00 og laugardaginn 9.maí kl 18:00.
Að þessu sinni er umgjörð tónleikana sérstaklega glæsileg í nýuppgerðu Gamla Bíói sem um árabil var stærsta og glæsilegasta samkomuhús Reykvíkinga. Húsið lét P. Petersen, sem ávallt var af Reykvíkingum kallaður Bíópetersen, byggja árið 1927 eftir evrópskum fyrirmyndum og var ekkert til þess sparað. Gamla Bíó hefur alla tíð þjónað listinni, bæði sem kvikmyndahús, samkomuhús og nú síðast sem óperuhús enda hefur alltaf þótt einstaklega góður hljómburður í húsinu. Nú hefur húsið verið endurnýjað og uppgert í og það er heiður fyrir Kvennakór Reykjavíkur að stíga þar á stokk með sína tónleika.

Efnistökin tengjast 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi. Við syngjum konum til heiðurs og er æviskeið kvenna viðfangsefnið. Tónlistin er fjölbreytt. Sungið er um barnæskuna, ástina og lífið með öllum sínum blæbrigðum og jafnréttisbaráttuna sem ekki sér fyrir endann á þó mikið hafi áunnist undanfarin 100 ár. Senjórítur, kór eldri kvenna sem margar muna tímana tvenna, taka lagið með okkur og syngja um efri árin og Gissur Páll Gissurarson tenór flytur óð til kvenna. Stjórnandi kórsins Agota Joo nýtur aðstoðar Þórunnar Ernu Clausen við að setja sýninguna saman en Þórunn er jafnframt sögumaður. Undirleik annast hljómsveit undir stjórn Vilbergs Viggóssonar.

Miðaverð er 3.900 kr og fer miðasala fram á Midi.is.
Verð fyrir 6-18 ára er kr 2.500
Frítt fyrir 6 ára og yngri..

Einnig fást miðar hjá kórkonum á forsöluverði.

Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Hin ljúfu jól

posted Nov 23, 2014, 2:58 PM by Kolbrun Halldorsdottir   [ updated Nov 23, 2014, 3:04 PM ]


Kvennakór Reykjavíkur býður gesti hjartanlega velkomna á aðventutónleika í Fella- og Hólakirkju.
Það er von okkar að gestir njóti þess að hlusta á kórinn syngja fallegan jólalsöngvaseið við kertaljós á öðrum sunnudegi í aðventu. Lagavalið er fjölbreytt og alþjóðlegt eins og oft áður.

Sungið er um spennuna sem fylgir aðventunni, jólaljósin, hjátrúna, veðrið og hina helgu nótt. Jólakötturinn eftir Jóhannes úr Kötlum vð lag Ingibjargar Þorbergs, í útsetningu Vilbergs Viggósonar er í sérstöku uppáhaldi. Einnig hið ungverska Englar og hirðar eftir Z. Kodály í
íslenskri þýðingu Rúnars Einarssonar.

Sérstakir gestir Kvennakórs Reykjavíkur á fyrri tónleikum dagsins eru Senjórítur, kór eldri kvenna sem svo sannarlega slá í gegn hvar sem þær koma fram. Senjórítur telja yfir 80 konur og flytja þær sín jólalög en kórarnir syngja einnig saman nokkur lög. Stjórnandi beggja kóra er Ágota Joó og undirleik annast Vilberg Viggósson.

Í kjölfar hvorra tónleika um sig, býður Kvennakór Reykjavíkur gestum að staldra við og þyggja léttar og jólalegar veitingar og njóta samverunnar við léttan samsöng og spjall.

Miðaverð:
2500 kr. í forsölu
3000 kr við innganginn

Miðar fást hjá kórkonum, í síma 8966468 eða á www.kvennakorinn.is


1-10 of 35