2009

Árið 2009 var viðburðaríkt og tilfinningaríkt ár. Sigrún sem hafði stýrt kórnum undanfarin 12 ár, ákvað að hætta. Til að halda til haga ýmsum uppáhaldslögum Sigrúnar frá ferli hennar með kórnum var ákveðið að líta yfir farinn veg og taka upp nokkur þessara laga með útgáfu á hljómdiski í huga. Kórinn tók þátt í kórastefnu á Mývatni í júní. Kvennakórinn fékk einnig tækifæri til leika í alvöru bíómynd, í annað sinn fyrir Friðrik Þór.

Febrúarfjör
Vorönnin hófst 14. janúar og 6. febrúar var Febrúarfjör haldið á Vitatorgi. Þemað var: Suðrænt og seiðandi. Mikið fjör að vanda. 

Æfingabúðir að Skógum

Farið var í æfingabúðir að Skógum í byrjun mars, mikið æft og sungið. Á laugardagkvöldinu var mikil gleði og gaman. Konur sýndu leikhæfileika sína í skrautlegum og skemmtilegum búningum. Sigrún kórstjóri sýndi enn á ný sína stórkostlegu hæfileika til að halda uppi fjörugum söng. Allt skemmtiprógram sem troðið hefur verið upp með var rifjað upp og notað tækifærið til að endurvekja löngu gleymdar raddir. Að sjálfsögðu lék Vignir við hvern sinn fingur.

„Mamma Gógó“

Í lok mars fengu leikhæfileikarnir aldeilis að njóta sín er Friðrik Þór kallaði sérstaklega eftir okkur til að leika í Mömmu Gógó. Svo vitnað sé í eina leikkonuna úr kórnum:
„Þá er jarðarför lokið. Allt gekk vel og á endanum var hægt að ljúka þessari athöfn þannig að allir væru ánægðir. Við náðum 25 manns sem er frábært og þakka ég innilega fyrir frábærar undirtektir og vinnu ykkar við að hringja í vini og ættingja til að bjarga málum. Sumir fengu meira að segja að bera kistuna út úr kirkjunni - og inn aftur – og út....”
Flottasta kaffihlaðborð í Reykjavík og þótt víða væri leitað, var útbúið fyrir BSRB 1. maí. 

Vortónleikar

Vortónleikar voru haldnir í maí, í Langholtskirkju. Efnisskráin var tvískipt. Fyrir hlé var flutt tónlist eftir konur og frumflutti kórinn m.a. verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, samið fyrir Samband íslenskra kvennakóra, Gígjuna. Eftir hlé var sveifla í anda 5. og 6. áratugar síðustu aldar.

Nýr kórstjóri

Um haustið var auglýst eftir kórstjóra og bárust 10 umsóknir. Eftir miklar pælingar og prófanir var valnefnd einhuga um að ráða Ágotu Joó til starfsins frá og með 1. desember. Ágota hefur verið kórstjóri Senjoríta og verða því báðir kórarnir undir hennar stjórn á næsta ári.

Aðalheiður Þorsteinsdóttir aðstoðaði við raddþjálfun kórsins á haustönn. 

Októberfest

Í október var haldin Októberfest á Vitatorgi. Sigrún og Vignir héldu uppi söngfjörinu og Ágota og Vilberg, nýju kórstjórahjónin, mættu og skemmtu sér vel. 

Aðventutónleikar í Guðríðarkirkju 2. og 5. desember

Nýtt verk, Hodie eftir Harald V. Sveinbjörnsson, samið fyrir Kvennakór Reykjavíkur og tileinkað Sigrúnu Þorgeirsdóttur, stjórnanda kórsins, var frumflutt á tónleikunum.

Einsöngvari á tónleikunum var Stefán Hilmarsson. Í lok seinni tónleikanna söng kórinn „Jag unnar dig ändå allt gott” sem kveðjulag til Sigrúnar. Eftir tónleikana var samsnæðingur og Sigrúnu var afhent sérsmíðuð næla með kvennakórsmerkinu. Svo vitnað sé í formann kórsins, Rögnu Karlsdóttur: „Með þessum tónleikum lýkur ríflega 12 ára farsælu starfi Sigrúnar Þorgeirsdóttur með kórnum. Sigrún hefur leitt kórinn með einstakri jákvæðni og mikilli fagmennsku. Með Sigrúnu hefur kórinn sungið í frægum kirkjum í Róm, Prag og París, svo og hellishvelfingum og hraunborgum á Íslandi, svo nokkuð sé nefnt. Kórinn þakkar Sigrúnu, kveður hana með söknuði og óskar henni alls hins besta í framtíðinni.”

Jólasamsöngur Kvennakórs Reykjavíkur og Senjoríta var haldinn í Breiðholtskirkju 10. desember.