UM KVENNAKÓR REYKJAVÍKUR

Kvennakór Reykjavíkur hóf starfsemi sína í janúar 1993. Hugmynd að stofnun kórsins áttu Margrét J. Pálmadóttir ásamt áhugasömum konum í kórskóla Margrétar í Kramhúsinu árið 1992.

Fyrsti stjórnandi var Margrét J. Pálmadóttir og stjórnaði hún kórnum til vors 1997.

Sigrún Þorgeirsdóttir tók við stjórn kórsins í september 1997 og stjórnaði hún kórnum í rúm 12 ár.

Núverandi stjórnandi er Ágota Joó en hún tók við af Sigrúnu í byrjun árs 2010.

Fyrsta æfing var 25. janúar 1993 en kórinn var formlega stofnaður 8. maí sama ár að loknum vortónleikum í Langholtskirkju.

Markmið Kvennakórs Reykjavíkur er samkvæmt lögum hans að efla söngmennt kvenna.

KÓRAR Í TENGSLUM VIÐ KVENNAKÓR REYKJAVÍKUR

Á fyrstu starfsárum Kvennakórs Reykjavíkur var aðsókn mikil og stofnaði kórinn þrjá nýja kóra til að anna eftirspurn, Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur, Gospelsystur og Senjorítur. Auk þess var Vox feminae stofnaður af félögum innan Kvennakórs Reykjavíkur, sem vildu syngja oftar og erfiðari verk. Árið 2000 var samið um að Kvennakór Reykjavíkur hætti afskiftum af rekstri hinna kvennakóranna og þeir yrðu sjálfstæðir kórar. Kvennakór Reykjavíkur rekur nú Senjorítur, kór eldri kvenna.

TÓNLEIKAR - VERKEFNI

Í Kvennakór Reykjavíkur eru að jafnaði 70 til 90 konur. Kórinn heldur tvenna fasta tónleika á ári, aðventutónleika og vortónleika. Auk þess hefur kórinn haldið skemmtitónleika u.þ.b. annað hvert ár, þar sem sungin hafa verið m.a. gospel lög, lög úr kvikmyndum, úr barnamyndum, Bítla- og Abbalög.

FERÐALÖG OG AÐRIR STÓRIR VIÐBURÐIR

Kórinn hefur farið í margar tónleikaferðir til útlanda. Fyrst má nefna kvennaráðstefnuna í Turku í Finnlandi 1994, söngferð til Ítalíu 1996 og til Bandaríkjanna 1999. Til Tékklands var farið í kórakeppni 2002 þar sem kórinn vann tvenn silfurverðlaun, í flokki kvennakóratónlistar og þjóðlagatónlistar. Farið var til Finnlands, Eistlands og Svíþjóðar 2005, Frakklands og Ítalíu 2007 og Noregs, á annað norræna kvennakóramótið, árið 2008. Kórinn tók þátt í Nordic-Baltic kóramótinu í Reykjavík í ágúst 2010 og í júní 2012 fór kórinn í tónleikaferð til Ungverjalands, heimalands stjórnandans, Ágotu Joó. Kvennakór Reykjavíkur stóð fyrir öðru landsmóti íslenskra kvennakóra í Reykjavík 1996 og kórinn hélt fyrsta norræna kvennakóramótið, í Reykjavík árið 2000.

GEISLADISKAR

Kvennakór Reykjavíkur hefur gefið út fjóra hljómdiska. Víf undir stjórn Margrétar Pálmadóttur árið 1997 og þrjá diska undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur: Jól árið 2000, Konur í tilefni af 10 ára afmæli kórsins 2003 en hann kom út 2005 og Reykjavíkurdætur sumarið 2010, en þar flytur kórinn nokkur af uppáhaldslögum Sigrúnar og Kvennakórs Reykjavíkur.

Æfingar fara fram á mánudögum kl 18:30 - 20:30 og miðvikudögum 20:00 - 22:00 að Lindargötu 59, við Vitatorg.
Nýjir félagar eru boðnir velkomnir í upphafi haustannar og vorannar.
Ef þið langar að syngja með okkur, hafðu þá samband á postur@kvennakorinn.is