2010

Starf vorannar hófst af krafti með nýjum kórstjóra. Æfð var tónlist frá öllum heimshornum, sungið á ensku, frönsku, ítölsku, þýsku, rússnesku, ungversku og íslensku og reynt eftir megni að læra textana utanbókar.
Sú nýjung var tekin upp að skanna inn nótur og setja í Googledocs gagnabanka á vegum kórsins. Konur geta nú sótt nóturnar þangað og prentað út eintök fyrir sig í stað þess að nótnanefnd þurfti áður að ljósrita eintök handa öllum kórkonum sem var mjög tímafrek vinna. Haldið var áfram með upptökur á lögum fyrir hljómdiskinn með Sigrúnu og þrjú lög voru tekin upp með kammerkórnum sem stofnaður var árið 2007 og hélt tónleika í febrúar það ár.

Kórinn fór í æfingabúðir að Skógum í byrjun mars. Góð helgi, mikil vinna og mikið fjör.

Kórinn sá um köku- og brauðtertuhlaðborð fyrir BSRB 1. maí. Var það glæsilegt að vanda. 

Vortónleikar

Vortónleikarnir voru að þessu sinni haldnir í Lindakirkju, Kópavogi, 9. maí.

Hátíðlegt fyrir hlé og síðan slegið á léttari strengi. Eitt af verkunum sem flutt var heitir Éjszaka, kórverk eftir ungverska tónskáldið József Karai. Það var sérstaklega skemmtilegt fyrir kórinn að syngja þetta tónverk frá heimalandi stjórnandans á fyrstu tónleikum okkar með henni. Píanóleikari á tónleikunum var Vignir Þór Stefáns­son og með honum léku Vadim Fjodorov á harmóníku, Gunnar Hilmarsson á gítar og Leifur Gunnarsson á kontrabassa. Þessir tónleikar voru síðustu tónleikar Vignis Þórs Stefánssonar með Kvennakór Reykjavíkur en hann hefur verið píanóleikari hjá kórnum frá árinu 2003. Vignir er sérstaklega fjölhæfur og skemmtilegur píanóleikari og féll vel inn í hópinn.

Nordic – Baltic kóramót

Haustönnin hófst snemma með því að kórinn tók þátt í Nordic - Baltic kóramóti sem haldið var í Reykjavík dagana 17. – 22. ágúst. Tæplega 50 konur úr kórnum tóku þátt í mótinu og sungu þær á tónleikum undir stjórn Ágotu í Laugardalshöll. Einnig tóku þær þátt í smiðju (workshop) þar sem tekin voru fyrir tónverk fyrir blandaða kóra með hljómsveitarundirleik. Það var stórkostleg upplifun að syngja með 1800 kórfélögum þegar mest var. Á Menningarnótt söng Kvennakórinn á tröppum Þjóðleikhússins og einnig á Austurvelli við kvennafrístjaldið, við undirleik mótorhjóla.

“Reykjavíkurdætur”

Hljómdiskurinn Reykjavíkurdætur, kom út í ágúst. Á diskinum eru erlend og innlend lög, valin af Sigrúnu Þorgeirsdóttur og er diskurinn gefinn út henni til heiðurs.

Aðventutónleikar

Aðventutónleikar voru haldnir í Neskirkju 25. og 27. nóvember. Efnisskrá var fjölbreytt að vanda, í anda aðventu og jóla. Þar voru verk tileinkuð heilagri guðsmóður og slegið á léttari strengi í Cool Yule og Santa Baby. Píanóleikari á tónleikunum var Vilberg Viggósson, Nína Hjördís Þorkelsdóttir lék á flautu og Jón Björgvinsson á slagverk. 

Jólasamsöngur kvennakórsins og Senjórítanna fór fram í Breiðholtskirkju þann 2. desember og að vanda var hann vel sóttur af fjölskyldum og vinum beggja kóranna. 

Kvennakórinn söng á jólaskemmtun á Vitatorgi föstudagskvöldið 10. desember og daginn eftir hóf kórinn upp raust sína í Iðu, Lækjargötu og í Pennanum í Austurstræti til þess að kynna nýútgefinn hljómdisk.